Lífið

Sólhattar norðursins eru úr ull

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Myndir/Elísabet Davíðs
Það er áhugavert að vinna með þá staðreynd að við notum húfur allan ársins hring, svona næstum því, en þannig kviknaði hugmyndin um sólhattana. Hér á norðurslóðum er góð ullarhúfa alveg jafn mikilvæg um sumarið og stráhatturinn er á suðlægari slóðum,“ útskýrir Brynhildur Pálsdóttir, vöruhönnuður og ein eigenda Víkur Prjónsdóttur, en fyrirtækið hefur sent frá sér línu af ullarhúfum sem kallast Arctic Sunhats, eða Sólhattar norðursins.

„Þetta eru litríkar ullarhúfur, ein húfa fyrir hvern mánuð í árinu. Við byrjum á björtu mánuðunum núna í myrkrinu; maí, júní, júlí og ágúst, en litirnir endurspegla sólina í þessum mánuðum. Við vildum fanga þau mögnuðu augnablik, þegar sólin skín alla nóttina og við sjáum alla þessa liti í himninum. Það verður áhugavert að útfæra myrkari mánuðina eins og janúar, febrúar og mars. Svo er gott að minna okkur á sólina núna þegar dimmasti tíminn er að ganga í garð og setja upp sólhattana og hugsa um birtu og hlýju.“

Húfurnar eru framleiddar fyrir Vík Prjónsdóttur í lítilli prjónaverksmiðju í Þýskalandi sem starfrækt hefur verið frá 1871. Brynhildur segir verksmiðjuna sérhæfa sig í framleiðslu fyrir minni fyrirtæki og sjálfstæða hönnuði en nota nýjustu tækni. Húfurnar eru úr enskri lambsull sem Brynhildur segir afar mjúka og búa yfir meiri teygjanleika en ull af fullorðnu fé.

Nánar má forvitnast um hönnun Víkur Prjónsdóttur á nýrri heimasíðu fyrirtækisins, 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×