Lífið

Nýtt listamannarekið gallerí opnað í 101

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Verkstæðið mun einbeita sér að tvívíða fletinum og möguleikum hans.
Verkstæðið mun einbeita sér að tvívíða fletinum og möguleikum hans. Fréttablaðið/Vilhelm
„Fyrst og fremst er þetta náttúrulega vinnustofa,“ segir Halldór Ragnarsson myndlistarmaður sem opnar í dag nýja galleríið Verkstæðið. „Fyrst við erum með þetta rými ætlum við líka að hafa einhverjar sýningar með áhugaverðum myndlistarmönnum.“

Galleríið er í eigu Halldórs og Jóns Pálmars Sigurðssonar, sem rekur einnig Paloma Bar. Verkstæðið er í bakhúsi á Grettisgötu 87.

Halldór og Palli fengu húsnæðið fyrst í júlí. „Það verða ekki endilega sýningar hér mánaðarlega, frekar þegar eitthvað hentar, þegar okkur finnst eitthvað áhugavert,“ segir Halldór. Galleríið leggur helst áherslu á listamenn sem leggja odd sinn og hugmyndir aðallega að tvívíða fletinum og möguleikum hans.

Í dag verður opnuð fyrsta sýning Verkstæðisins, Stækkunargler fyrir vindinn, eftir Helga Þorgils Friðjónsson. Á sýningunni mun Helgi líta á upphaf ferils síns og tefla fram málverkum sem voru að mestu leyti unnin á námsárum hans í Hollandi á áttunda áratugnum. „Með verkunum er hægt að rýna í fyrstu skrefin í átt að nýja málverkinu hér á landi og á verk listamanns sem kannski þótti ekki það „réttasta“ á þeim tíma,“ segir í fréttatilkynningu gallerísins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×