Lífið

Fékk yfir þúsund like á klukkutíma

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Palli á sviðinu í Sjallanum
Palli á sviðinu í Sjallanum Vísir/Baldvin Þeyr
„Ég er djúpt snortinn yfir þessu,“ segir Páll Óskar. Á þriðjudagskvöld setti hann mynd á Facebook með skilaboðunum að ef hann fengi yfir 1.000 „like“ á myndina skyldi hann halda síðasta ballið í Sjallanum á Akureyri á gamlárskvöld, áður en staðnum verður lokað. ,

Viðtökurnar voru ótrúlegar og klukkutíma síðar var takmarkinu náð. „Þetta er bara klappað og klárt. Ég er búinn að vera í símanum í allan morgun að redda mér heim á nýársdag. Það er ekki áætlunarflug, svo ég reddaði mér einkaflugvél,“ segir Palli og hlær.

Eins og fram hefur komið mun Sjallanum verða lokað um áramót, en til stendur að reisa hótel þar.

„Ég vil bara fá að vera síðasti popparinn til að troða þarna upp. Ég ætla að taka þetta á blastinu og það verður sko alvöru glimmerbomba á gamlárskvöld,“ segir hann og bætir við að samkvæmt hans útreikningum sé þetta tíunda árið í röð sem hann treður upp í Sjallanum á gamlárskvöld.

„Það er svo gaman að fá svona staðfestingu á að fólki þyki svona vænt um Sjallann og að því sé ekki sama. Við Dabbi, skemmtanastjóri Sjallans, urðum bara klökkir að fylgjast með „like-unum“ í gær,“ segir Palli. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×