Lífið

Grafískt unnar myndir af fjöllum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Elísabet hefur þróað hugmyndina að myndunum síðan í september.
Elísabet hefur þróað hugmyndina að myndunum síðan í september. Vísir/Stefán
„Þetta hefur verið í þróun síðan í september. Ég gaf vinkonu minni mynd af fjallinu okkar heima í afmælisgjöf, en við erum báðar að austan,“ segir Elísabet Sara Emilsdóttir en í framhaldi afmælisgjafarinnar fóru hjólin að snúast.

„Ég vissi í rauninni ekkert hvað ég ætlaði að gera með þetta en byrjaði að fá fyrirspurnir,“ segir Elísabet sem fór í kjölfarið að vinna að ljósmyndaseríunni Tindum.

Elísabet tekur allar myndirnar af fjöllunum sjálf og það tekur talsverðan tíma að ferðast um og ná góðum myndum í sómasamlegu veðri. „Núna er ég búin að gera sjö fjöll og það eru fleiri væntanleg.“

Myndirnar koma í takmörkuðu upplagi. „Þetta eru grafískt unnar ljósmyndir. Ljósmynd í grunninn og svo mynstra ég þær. Hver og ein er með sínu eigin mynstri sem verður til út frá hæð og lögun fjallsins.“

Elísabet segist verða vör við að fólk vilji fá myndir af fjöllum sem það hafi persónulega tengingu við. „Ég er alin upp á Seyðisfirði og það er svolítið svona persónulegt fyrir fólk að eiga eitthvað frá heimabyggðinni uppi á vegg. Marga langar að eiga eitthvað sem minnir þá á heimahagana.“

Myndir Elísabetar er hægt að fá í verslunum Mýrarinnar, Gullabúinu á Seyðisfirði og versluninni Level í Mosfellsbæ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×