Lífið

Það á enginn annar svona hús

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Við teljum að Kápa hafi verið tröllskessa sem hafi orðið að steini þegar sólin kom upp einn morguninn,“ segir Halldóra Dröfn.
„Við teljum að Kápa hafi verið tröllskessa sem hafi orðið að steini þegar sólin kom upp einn morguninn,“ segir Halldóra Dröfn. Fréttablaðið/GVA
Það er verst hvað dimmviðrið er mikið í dag. Við erum með Búlandstind í bakgarðinum en nú grillir ekki í hann,“ segir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir brosandi þegar bankað er upp á hjá henni í Kápugili við Berufjörð. Hún býr með fjölskyldu sinni í stjörnulaga húsi inn á milli kletta og erindið er að fá að kíkja inn og komast í nánd við einstaka orkustrauma sem um húsið liggja.

Kápugil Upphaflega var húsið teiknað eins og píramídi en var svo breytt í stjörnu.
Ræður öllu

Halldóra er hvorki meira né minna en leikskóla-, grunnskóla og tónskólastjóri á Djúpavogi. „Ég ræð öllu, segi ég stundum við krakkana,“ segir hún hlæjandi.

En það er ekki um starfið hennar heldur húsið sem við erum sérstaklega forvitin. „Já, þetta er skrítið hús og það er ofboðslega góður andi í því. Öllum sem koma hingað finnst koma friður og ró yfir þá,“ segir Halldóra. „Sá sem byggði húsið heitir Emil Björnsson, hann er ættaður frá Teigarhorni og er mikill útivistarmaður. Hann teiknaði húsið fyrst sem píramída, ætlaði að hafa það í laginu eins og Búlandstind. En svo sá hann að efri hæðin yrði alltof þröng og togaði hornin út.

Þegar horft er á húsið ofan frá er það eins og stjarna og öll herbergin í því eru stór og björt. Eitt er víst, það á enginn annar svona hús.“

Halldóra hefur það eftir húsbyggjandanum, fyrrnefndum Emil, að þrjár orkulínur mætist í súlu sem gengur upp í gegnum húsið. Þær komi frá nálægum stöðum sem kraftur streymi frá, meðal annars Búlandstindi.

„Hér er mikill orkupunktur,“ segir hún og styður hendi á súlu á neðri hæðinni sem hún segir enn greinilegri á þeirri efri – og það passar.

Ætluðu að vera eitt sumar

Halldóra Dröfn og eiginmaður hennar, Albert Jensson, eru Stöðfirðingar sem komu á Djúpavog 1995. „Við ætluðum að vera hér eitt sumar. Albert fór að þjálfa fótbolta en ég var nýútskrifaður kennari og ætlaði að fara heim á Stöðvarfjörð að kenna um haustið.

Svo voru allar kennarastöður dekkaðar þar en hér vantaði kennara svo ég hugsaði, ah, jæja, ég verð þá einn vetur hér. En svo ílengdumst við. Bjuggum fyrst þrjú ár úti í þorpi en langaði alltaf að eiga hús aðeins utan við bæinn, svo frétti ég einn daginn á kennarastofunni að Kápugil væri til sölu.

Við fengum að kíkja á það sama dag og ekki varð aftur snúið. Við fluttum hér inn 4. maí 1998 og erum mjög hamingjusöm, enda í dásemdarumhverfi.“

Fyrir ofan tvennar dyr uppi eru málverk af degi og nótt. Hér brosir sólin sjálf.
Margir reka upp stór eyru

Eftir skoðunarferð um þetta skrítna hús kíkjum við á garðinn. Tilkomumikill klettur setur svip sinn á hann, þar búa hollvættir heimilisins, að sögn Halldóru.

Hreindýrin hafa eyðilagt sum trén enda virða þau engar hindranir eins og girðingar. Rjúpa kurrar í grenndinni og uppi í hlíðinni blasir við gil, Kápugil.

„Margir reka upp stór eyru þegar þeir heyra bæjarnafnið Kápugil,“ segir Halldóra. „Venjulega sagan er mjög einföld, að það hafi verið kind sem hét Kápa sem hafi haldið til í gilinu. En sagan sem við höldum á lofti er að Kápa hafi verið tröllskessa. Það er drangur hér rétt fyrir ofan og þar segjum við að hún hafi orðið að steini, þessi elska. Ekki varað sig einn morguninn þegar sólin kom upp.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×