Lífið

Nítján ára Dalvíkingur með ljósmynd í ítalska Vogue

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Viðar Logi á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.
Viðar Logi á svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Mynd/Viðar Logi Kristinsson
„Mér var sagt að það væri mikið mál að fá mynd birta þarna, svo ég bara prófaði að senda hana inn. Myndin var svo birt, sem er alveg frekar merkilegt þar sem þetta er Vogue,“ segir Viðar Logi Kristinsson, 19 ára nemi í Menntaskólanum á Akureyri og áhugaljósmyndari.

„Áhuginn kviknaði þegar ég fékk mér Photoshop í tölvuna sem ég fékk við fermingu og fór að fikta við að breyta myndum, en gat alveg gleymt mér við það tímunum saman. Svo safnaði ég mér fyrir minni fyrstu myndavél, Canon 500D, og þá varð ekki aftur snúið,“ segir Viðar.

Það var svo þegar hann komst á skrá hjá Eskimo models sem áhuginn á tískuljósmyndum kviknaði.

„Þá sá ég hvernig vinnan var fyrir aftan myndavélina og ég varð gjörsamlega heillaður,“ segir hann.

Viðar er uppalinn á Dalvík og starfaði í fiskvinnslu í nokkur sumur þegar hann var yngri. 

„Ég er mjög þakklátur fyrir þessa vinnu í dag. Þarna gat maður staðið í færibandavinnu, hlustað á tónlist og látið hugann reika og ég vil meina að ég hafi fengið margar af mínum bestu hugmyndum í fiskvinnslunni,“ segir hann og hlær. 

Myndin hans Viðars sem birtist á síðu ítalska Vogue.
Viðar lýsir stílnum sínum sem smá goth-ískum, en þó litríkum.

„Mér leiðist hefðbundin ljósmyndun þar sem mér finnst hún ekki sýna nóg. Það er skemmtilegast að mynda fólk og fanga persónuleika þess og tilfinningar á mynd. Ég reyni að sækja ekki innblástur í verk annarra, heldur í tónlist, liti og náttúruna,“ segir Viðar og bætir við að fallega umhverfið sem hann ólst upp í hafi haft hvað mest áhrif á hann. „Það er ómetanlegt að hafa fengið að alast upp þarna í skapandi frelsi, öryggi og fallegu umhverfi.“ 

Eftir menntaskóla hyggst Viðar fara út og læra ljósmyndun.

„Mig langar að einbeita mér að tískuljósmyndun. Ég hef gert nokkra tískuþætti fyrir stór tímarit hér heima, ásamt einu stærra verkefni úti sem ég get því miður ekki sagt meira um. En þetta er það sem ég vil gera,“ segir hann.

Skemmtilegt og öðruvísi sjónarhorn í þessari mynd.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×