Lífið

Pennavinur fanga á dauðadeild

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Gunnhildur með lítinn hluta bréfanna sem hún hefur fengið en hún skrifar sín bréf á tölvu og gefur sér góðan tíma til þess. Bréfin frá henni eru allt upp í tuttugu síðna löng en handskrifuð bréf fanganna eru um sex síður.
Gunnhildur með lítinn hluta bréfanna sem hún hefur fengið en hún skrifar sín bréf á tölvu og gefur sér góðan tíma til þess. Bréfin frá henni eru allt upp í tuttugu síðna löng en handskrifuð bréf fanganna eru um sex síður. vísir/stefán
Gunnhildur var aðeins sextán ára gömul þegar hún skrifaði sitt fyrsta bréf til fanga á dauðadeild. Ástæðan fyrir því að henni datt sá möguleiki í hug var kvikmyndin The Hurricane með Denzel Washington. Í myndinni er svartur maður ranglega dæmdur til dauða vegna kynþáttafordóma en með hjálp aðstandenda, og þar á meðal pennavinar hans, er mál hans tekið upp að nýju og sakleysi sannað. Myndin hafði mikil áhrif á hana og varð til þess að hún fór á netið að gúggla pennavini fanga.

„Það kom á óvart hve margar heimasíður eru til sem bjóðast til að tengja mann við fanga, flestar þeirra eru reknar af mannréttindasamtökum. Ég valdi mér eina slíka og þar var hægt að velja kyn, aldur, kynþátt, sjá myndir af viðkomandi og sakaskrá ef maður vildi. Einnig hversu langan dóm viðkomandi fékk. Mínir þrír pennavinir hafa allir setið á dauðadeild og eiga það sameiginlegt að vera allir svartir og mjög ungir þegar þeir eru dæmdir til dauða,“ segir Gunnhildur og dregur upp bunka af handskrifuðum bréfum. Þetta eru eingöngu bréf frá einum fanganum, hin eru í kassa í geymslu.

Allir eiga skilið annað tækifæri

Gunnhildur hefur alltaf haft mikinn áhuga á bandarísku réttarkerfi og er gífurlega mótfallin dauðarefsingum en í meira en helmingi fylkja Bandaríkjanna eru dauðarefsingar leyfilegar.

„Í Suðurríkjunum eru refsingarnar sérstaklega litaðar kynþáttafordómum þar sem kornungir menn fá dauðarefsingu, jafnvel við fyrsta alvarlega glæpinn, og eru í mörgum tilfellum svartir. Mín lífssýn er sú að allir eigi skilið annað tækifæri,“ segir Gunnhildur.

Hún ákvað því að leggja sitt af mörkum til að gera dvöl þessara fanga bærilegri á dauðadeildinni. „Það eru grundvallarmannréttindi að fá að eiga samskipti við annað fólk. Fangar á dauðadeild fá klukkutíma á sólarhring til að gera eitthvað annað en að sitja í fangaklefanum. Ég sendi þeim bréf í gegnum tölvupóst og þeir nota þennan klukkutíma til að lesa bréfin. Svo svara þeir mér með handskrifuðum bréfum og þeir borga sjálfir fyrir frímerki, pappír og annað. Þessi samskipti eru greinilega ofarlega í forgangsröðinni hjá þeim, alla vega hafa þeir sem ég hef talað við kosið að eyða þessum dýrmæta tíma sínum í bréfaskriftir. Þörfin fyrir samskipti er svo sterk og samskiptin innan veggja fangelsisins eru ekki endilega eftirsóknarverð, enda ekki mjög heilbrigð oft og tíðum. Þannig að ástæðan fyrir því að ég geri þetta er sterk réttlætiskennd, von til að gleðja þá en líka forvitni mín á öllu sem tengist þessum málum. Svo kom í ljós að þetta er mjög gefandi, bæði að eiga pennavin og skrifa bréf um líf sitt en einnig að gefa einhverjum ókunnugum sem er á erfiðum stað í tilverunni smá ljósglætu, tilhlökkun og kannski tilgang með deginum.“

Gunnhildur segist ekki geta hugsað sér að skrifa hverjum sem er heldur velur þá sem henni finnst hafa fengið ansi harðan dóm á unga aldri.vísir/stefán
Myndi ekki skrifa hverjum sem er

Eftir að hafa fengið leyfi hjá foreldrum sínum byrjaði Gunnhildur að skrifast á við fyrsta pennavininn, ungan mann sem var átján ára þegar hann framdi glæpinn sem hann fékk dauðarefsingu fyrir. Hann framdi vopnað rán og myrti afgreiðslumanninn með slysaskoti. Gunnhildur vissi fyrst ekki fyrir hvað hann sat inni, hún hafði ekki kosið að sjá sakaskrána og samkvæmt leiðbeiningum heimasíðunnar sem tengdi þau saman þá er ekki mælt með að spyrja fangann beint út í glæpinn heldur bíða þar til hann kýs sjálfur að segja frá því. 

„Enginn af mínum pennavinum hefur reynt að sannfæra mig um sakleysi sitt, þeir hafa einmitt viðurkennt glæp sinn í auðmýkt og lýst eftirsjá sinni. Mér finnst óskiljanlegt að átján ára strákur sé settur á dauðadeild. Ég er ekki að réttlæta það sem hann gerði en maður getur gert stór mistök þegar maður er svona ungur – og lært af þeim. Auðvitað var erfitt að heyra hann lýsa fyrir mér glæpnum en það hafði ekki áhrif á pennavináttuna. Reyndar myndi ég ekki vilja skrifast á við hvern sem er. Ég hef valið unga menn sem hafa fengið fullþunga refsingu að mínu mati, fanga sem mér finnst eiga skilið að fá annað tækifæri. Ég myndi til dæmis aldrei vilja skrifast á við helsjúka raðmorðingja og barnanauðgara.“ 

Aftakan var sjokk

Fyrsti pennavinur Gunnhildar var tekinn af lífi 2008. Þá voru þau búin að skrifast á í tvö ár og búin að kynnast mjög vel. Þá var Gunnhildur eingöngu átján ára gömul. 

„Mér leið hrikalega. Þetta var í raun algjört sjokk þótt ég vissi náttúrulega að þetta myndi enda svona. Á heimasíðunni eru gefnar upp dagsetningarnar á aftökum. Þetta var samt mjög erfitt. En maður má ekki taka þetta of mikið inn á sig. Svona er þetta, ég get lítið gert til að breyta því en ákvað að halda áfram að láta gott af mér leiða.“ 

Gunnhildur fékk nýjan pennavin en þeirra bréfaskriftir komust aldrei á flug og því lognaðist sambandið út af. Hún segir eðlilegt að slíkt gerist eins og í öllum samskiptum, þar sem fólk á einfaldlega misjafnlega vel saman. Nú á hún þriðja pennavininn. Það er 36 ára gamall maður sem hefur setið í fangelsi frá því að hann var 18 ára. Hann var í götugengi, seldi eiturlyf og lenti í skotbardögum. Hann var með tvo minni dóma á bakinu en þriðja dóminn fékk hann þegar hann fór ásamt vini sínum að hræða vinnuveitanda sinn sem hafði ekki borgað þeim laun. Þeir voru með byssuna hans meðferðis og vinurinn skaut af henni og drap manninn. Vinurinn, sem er hvítur, fékk fjörutíu ára dóm. Hann, sem er svartur, fékk dauðadóm. Fljótlega eftir að Gunnhildur byrjaði að skrifast á við hann komu fram ný vitni í málinu og dómurinn var mildaður þannig að nú er hann farinn af dauðadeild. Málinu er ekki enn lokið en Gunnhildur segir mikla von búa í brjósti hans og talar hann stöðugt um það „þegar hann kemst úr fangelsi“. 

„Til hamingju með afmælið. Jafnvel þótt þú hafir yfirgefið mig þá mun ég minnast góðu samtalanna. Ég veit að þú átt afmæli á þessum tíma og vildi óska þér til hamingju. Hafðu það gott og ég er hér ef þig langar að hafa samband aftur..." er meðal þess sem stendur í kortinu
Engin rómantík

„Bréfin eru mjög einlæg og maður kynnist þeim mjög vel. Mörgum finnst erfiðara að opna sig við fjölskylduna eða vini vegna skammar og áminningu um fortíðina. Þeir eru með afar brotna sjálfsmynd og margir fastir í einhverjum sporum. Það að eiga pennavin gefur þeim tækifæri til að eiga samskipti við umheiminn, tala við einhvern utanaðkomandi sem krefst einskis af þeim og bara hlustar. Ég er á Facebook-síðu pennavina fanga og þar sér maður ýkt dæmi af því hversu náin þessi samskipti geta orðið, þar eru konur sem enda með því að giftast föngum á dauðadeild. Það er alveg á tæru að það er ekki mitt markmið með bréfaskriftunum,“ segir Gunnhildur og skellihlær. „Ég tek fram í fyrsta bréfi að ekki sé um rómantík að ræða heldur eingöngu vináttu. Ég segi líka að ef hann virði það ekki þá hætti ég að skrifa.“ 

Hún bendir á að vegna mikilvægi bréfaskriftanna fyrir fangana séu bréfaskriftirnar mikil skuldbinding. Ef bréf hætta allt í einu að berast geti þeir upplifað mikla höfnun.

„Þú ert kannski það eina sem þeir hafa og þar með tekurðu allt frá þeim. Ég skrifa bréf svona einu sinni til tvisvar í mánuði og ég undirbý mig andlega áður en ég sest niður við skriftir. Þetta tekur alveg á. En þetta er svolítið eins og að skrifa dagbók, mjög gefandi og góð stund líka. Maður lýsir tilfinningum sínum, segir hvað maður er að hugsa og gera. Það getur líka verið erfitt að lesa bréfin frá þeim, þau geta verið mjög þung og lýsa erfiðum aðstæðum. Svo sendum við myndir, ég sendi honum til dæmis margar myndir frá ferðalagi mínu í Asíu – guð minn góður, Asía,“ æpir Gunnhildur allt í einu upp. „Það er svo hræðilega sorgleg saga og lýsir vel ábyrgðinni sem maður tekur á sig,“ segir Gunnhildur og grefur upp fallegt afmæliskort úr bréfabunkanum við hliðina á sér. 

„Ég ferðaðist um Asíu í allt sumar en gleymdi að segja honum frá því. Þegar ég kem heim í lok ágúst bíður mín þetta afmæliskort en ég hafði fyrir löngu nefnt við hann að ég ætti afmæli í lok ágúst. Í kortinu stóð að hann skildi ekki af hverju við værum hætt að tala saman en að hann vildi óska mér til hamingju með afmælið. Í bréfinu á undan hafði hann spurt hvort hann mætti hringja í mig og spjalla af og til við mig í síma. Hann hélt að ég hefði fríkað út vegna þess og lokað á hann. Ég lá í sófanum og hágrét þegar ég kom heim frá Asíu og sá þetta afmæliskort. Ég var algjörlega miður mín en hann fyrirgaf mér eftir að hafa fengið tuttugu síðna bréf með afsökunum og ferðasögunni frá Asíu, ásamt myndum.“ 

Væri til í heimsókn

Gunnhildur hefur íhugað að fara til Bandaríkjanna og heimsækja pennavini sína. Oft tala þau þannig í bréfunum, eins og þau muni hittast og sýna hvort öðru land sitt. Henni finnst það fallegt, hvort sem það gerist eða ekki. Það sem hefur stoppað hana hingað til er hversu dýr sú ferð yrði en hún segir að það verði kannski einhvern tímann af því. Það kom henni því svolítið á óvart hvað henni brá þegar pennavinurinn bað um númerið hennar. 

„Það varð svo raunverulegt. Símtal er allt öðruvísi en að sitja í skjóli tölvunnar hinum megin á hnettinum. Hann ætlaði sem sagt að safna fyrir símakorti og var voða spenntur að heyra frá mér. Það er náttúrulega mjög persónulegt, að heyra röddina hans og eiga svona flæðandi samtal. Ég velti þessu aðeins fyrir mér en komst svo að þeirri niðurstöðu að það var ekkert að óttast. Það eru allir alltaf svo hræddir við allt. Af hverju á maður að vera það? Af hverju ekki að leyfa hlutunum að gerast, slaka á fordómum og sjá það góða í fólki? Þannig að ég gaf honum númerið mitt og hann gæti bara hringt á hverri stundu,“ segir þessi hressa og einlæga unga kona að lokum og þvertekur fyrir það að fólk sé með fordóma fyrir þessum bréfaskriftum hennar. Flestir verði hissa á að slíkar bréfaskriftir séu mögulegar og verða forvitnir. Hún hvetur því fólk til að kynna sér málin frekar enda séu margar heimasíður til sem hægt er að skoða og bendir á þá sem hún hefur notað sjálf. 

Brot úr bréfum

Fanginn sem Gunnhildur skrifast á við núna var dæmdur til dauða 18 ára en er nú 36 ára. Hann var nýlega fluttur af dauðadeild vegna framburðar nýrra vitna í máli hans. Máli hans er ekki lokið en það er greinilegt að hann ber von í brjósti um að losna einhvern tímann út.



Fangadrama

Guð minn góður. Þeir pirra mig svo þessir gaura. Það kostar alltaf eitthvað að vera vinur þeirra. Ég er fátækur maður og á ekki mikið til að gefa þeim. Það er kannski ekki alveg rétt, því ég gef þeim góð ráð þótt þeir noti þau sjaldan. Það er pirrandi, því þeir leita til mín og biðja um ráð sem ég gef þeim en svo snúa þeir sér við og um leið breyta rangt. Annað sem er alveg brjálað. Ég er sá eini hérna inni sem er sekur. Af þúsund föngum eru 999 saklausir. Ég hef ekki tíma fyrir svona bull. Gaurarnir halda manni í marga klukkutíma og segja að þeir hafi ekki gert neitt, svo les maður skjölin þeirra til að reyna að hjálpa þeim og kemst að því að þeir eru að ljúga. Sannanir og lífssýni alls staðar. Flestir eru hér vegna morða, rána og eiturlyfjasölu. Peningar. Þetta snýst allt um peninga.

Draumar

Hvað dreymir mig um? Að komast úr fangelsi einn daginn, vonandi á meðan foreldrar mínir eru enn á lífi. Mig langar að eiga venjulegt líf, vera í vinnu og vera hamingjusamur. Ég held ég hafi þurft að fara í gegnum þessa reynslu til að skilja hvað skiptir máli í þessu lífi. Ég hef svo sannarlega náð því. Þegar ég kemst út mun ég aldrei fara í gegnum þetta aftur eða leggja annað eins á fjölskylduna mína. Ég hef góða tilfinningu fyrir framtíðinni.

Ísland

Ég hef farið á bókasafnið og lesið mér til um Ísland. Ég hef lesið mikið og rannsakað landið þitt og skil af hverju þú vilt búa þar. Þú ert líka á góðum stað, ung og veist hvað þú vilt í lífinu. Það er gott. Ég er kominn á nýjan stað, hann er mun betri. Og ég er þakklátur fyrir gott fólk í lífi mínu sem heldur mér á jörðinni. Það er svo auðvelt að fara út af sporinu, sérstaklega þar sem hinir gaurarnir hérna eru út úr kortinu. Alltaf að spila einhverja leiki. Ég er ekki fyrir leiki, ég kem til dyranna eins og ég er klæddur.

Fjölskyldan

Ætli það mætti ekki segja að fjölskyldan mín sé að lifa ameríska drauminn. Þau hafa það gott. Þessa dagana er bróðir minn að reyna að finna stað fyrir mig til að hafa tilbúinn þegar ég kem út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×