Viðskipti innlent

Lemon opnar í París

Stefán Árni Pálsson skrifar
Smekklegt húsnæði.
Smekklegt húsnæði. vísir
Veitingastaðurinn Lemon opnar sinn fyrsta stað erlendis og það í höfuðborg Frakklands, París - staðurinn mun formlega opna 1. mars á 43 Rue des Petits Carreaux - í öðru hverfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lemon.

Það er Eva Gunnarsdóttur sem mun eiga og reka Lemon í Frakklandi með sérleyfi frá Lemon hér á landi.

Þetta umfangsmikla verkefni hefur verið í undirbúningi í næstum tvö ár en Lemon hefur tryggt sér virkilega smekklegt húsnæði í hverfinu. Það er rétt fyrir ofan Rue Montorgueil  sem er fræg göngugata í París.

Um er að ræða skemmtilegt hverfi sem er að breytast mjög hratt og verður gaman að fylgjast með viðtökum Frakka við íslensku samlokunni. Undirbúningur Lemon í öðrum löndum er kominn langt á veg og verða umfangsmiklar fréttir af því á næstu mánuðum.

Með þessari opnun í París verða Lemon staðirnir orðnir fimm en hér heima er Lemon á Suðurlandsbraut 4, Laugavegi 56, Hjallahrauni 13 Hafnarfirði og Hafnargötu 29, Reykjanesbæ.

Aðdáendur íslenska landsliðsins í knattspyrnu geta því fengið sér Lemon í París næsta sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×