Lífið

Harrison Ford kýldi Ryan Gosling

Samúel Karl Ólason skrifar
Ryan Gosling og Harrison Ford.
Ryan Gosling og Harrison Ford. Vísir/Getty
Stórleikarinn Harrison Ford kýldi Ryan Gosling í andlitið við tökur á myndinni Blade Runner 2049. Gosling segist líta á atvikið sem nokkurs konar eldskírn. Höggið lenti fyrir slysni þegar verið var að taka upp slagsmálaatriði og baðst Harrison Ford afsökunar eins og honum einum er lagið, enda er hann þekktur fyrir einstaka kímni sína.

Í viðtali við GQ segir Gosling að um leið og tökunni var lokið hlupu starfsmenn til hans með íspakka til að setja á andlitið á honum. Ford ýtti Gosling þó frá og notaði íspakkann á hnúann á sér.

Leikstjóri myndarinnnar, Denis Villeneuve, kom að máli við Gosling eftir atvikið og sagði honum að líta á björtu hliðina.

„Þú varst kýldur af Indiana Jones.“

Gosling segir atvikið hafa verið fyndið og þá sérstaklega afsökunarbeiðni Ford.

Hann kom seinna um daginn að Gosling með viskíflösku. Gosling segist hafa átt von á einhverju slíku, en Ford dró glas upp úr vasanum, helti í það og rétti Gosling glasið. Því næst gekk hann á brott með flöskuna.

„Ég held að honum hafi ekki þótt höggið nógu þungt til að ég ætti rétt á allri flöskunni,“ segir Gosling.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×