Lífið

Gera myndlist sýnilegri með vefgalleríi

Guðný Hrönn Antonsdóttir skrifar
Þær Þórdís Erla Zoëga, Elísabet Alma Svendsen og Sigþóra Óðinsdóttir komu nýlega inn í Islanders-teymið og opnuðu vefgallerí.
Þær Þórdís Erla Zoëga, Elísabet Alma Svendsen og Sigþóra Óðinsdóttir komu nýlega inn í Islanders-teymið og opnuðu vefgallerí. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
Margir íslenskir fagurkerar kannast við vefsíðuna Islanders þar sem þær Auður Gná og Íris Ann veita lesendum innsýn inn á spennandi og falleg heimili fólks. En nýjasta viðbótin við Islanders er vefgalleríið Islanders Gallery þar sem íslenskri myndlist er gert hátt undir höfði. Það eru þær Þórdís Erla Zoëga, Elísabet Alma Svendsen og Sigþóra Óðinsdóttir sem hafa umsjón með því.

Hugmyndin með Is­landers Gallery er að vera með sýningar sem eru einungis aðgengilegar á netinu að sögn Þórdísar Erlu. „Í upphafi hverrar sýningar verðum við með opnun í raunheimi sem mun standa í einn til tvo daga en svo í framhaldi mun hún lifa á netinu. Ef áhugi er fyrir hendi getur fólk haft samband við okkur og við komum því í samband listamanninn. Við erum ekki bundin við eitt tiltekið gallerírými heldur getum verið með sýningar víðsvegar, sem henta þá hverri sýningu,“ útskýrir Þórdís og bætir við að verkefnið fari vel af stað en það var myndlistarmaðurinn Kristinn Már Pálmason sem reið á vaðið með fyrstu sýningu Islanders Gallery.

Opnunin á sýningu Kristins, sem ber heitið Go Pink Yourself, fór fram í einstöku húsi við Brekkugerði sem arkitektinn Högna Sigðurðardóttir hannaði. „Við höfum fengið gífurlega góð viðbrögð við galleríinu og opnunin gekk vonum framar. Gestum fannst spennandi að fá að upplifa list í svona sérstöku húsi. Við höfum fundið fyrir því að rekstrarform sem þetta er kærkomin tilbreyting frá hinu hefðbundna formi. Sýningar í óhefðbundnum rýmum er nálgun sem fólk er almennt hrifið af.“





Verk eftir Kristin Má Pálmason.
Myndlist verður aðgengilegri á netinu

Þórdís telur að með auknu aðgengi muni áhugi fólks á myndlist aukast. „Myndlist hefur færst mikið yfir á netið, þar er allt aðgengilegt öllum stundum. Sýningar sem eru sýndar í raunheimi fá í framhaldi að lifa á netinu þannig að þetta er aðgengilegri vettvangur. Við erum að taka þetta á næsta stig og leyfa sýningunni frekar að standa á netinu, en fólki sem hefur áhuga á að fá að skoða verkin með eigin augum er velkomið að hafa samband og kíkja í kaffi til okkar og listamannsins. Það er mikilvægt að nýta bæði sviðin, að fólk geti upplifað myndlistina og komist í návígi við myndverkið en einnig að það sé í boði að auðvelda aðgengi og þá kemur vefurinn sterkur inn. Hvor vettvangurinn styrkir hinn. Við teljum að með aðgengilegri vettvangi verði myndlistin sýnilegri og þannig aukast líkur á að áhugi kvikni hjá fólki.“



Aðspurð út í fyrirkomulagið segir Þórdís að planið sé að láta hverja og eina sýningu standa í þrjá mánuði í senn á netinu þar sem verkin eru til sölu. „Hver sýning fær svo sína „raunheims“-opnun á nýjum og spennandi stað. Það er leyndarmál hvar næsta opnun verður haldin en okkar stefna er að finna alltaf áhugaverð rými sem passa hverjum listamanni fyrir sig. Við teljum að þetta fyrirkomulag muni auka áhuga fólks þar sem upplifunin og skynjunin verður alltaf mismunandi eftir staðsetningu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×