Lífið

Miklu meiri neysla en áður

Sæunn Gísladóttir skrifar
Vísir/Stefán
Jólin í dag virðast snúast meira um neyslu en áður, það er meira hugsað um gjafir heldur en boðskap jólanna. Jólin í gamla daga einkenndust af mun meiri undirbúningi, gríðarlegum þrifum og bakstri. Þetta segja konurnar sem hittast vikulega til að prjóna saman í Gerðubergi. Blaðamaður fékk að hitta þær og heyra um jólahaldið hér á árum áður. Margt hefur breyst, en sumar hefðir eins og bakstur og hangikjöt hverfa seint.

Ágústa Hjálmtýsdóttir var forsprakki hópsins sem hóf að prjóna saman fyrir níu árum. „Við byrjuðum á einum föstudagsmorgni og ég vissi ekki hvort einhver kæmi og bauð því nokkrum konum sem ég þekkti að koma. Nú hittumst við á hverjum föstudagsmorgni frá 10 til 12 og erum oftast fimmtíu saman,“ segir Ágústa.

Hún leggur mikla áherslu á að enginn kostnaður fylgi starfseminni. „Það kemur hver með sinn bolla þannig að það sé ekkert uppvask. Þetta er allt sjálfbært og við komum með kaffinu til skiptis. Það koma um 50 konur hverju sinni, þetta er mikið sami hópurinn og þær koma alls staðar að. En alltaf er einhver nýr að koma,“ segir Ágústa.

Hópurinn hefur meðal annars prjónað fyrir bágstödd börn í Grænlandi sem skákfélagið Hrókurinn hefur verið að styrkja og nú fyrir jólin keyptu þær og pökkuðu inn jólapökkum fyrir 40 börn þar í landi. Prjónað er allt árið um kring. „Þær fást ekki til að hætta það er eiginlega ekki hægt að hætta á sumrin þó fækki aðeins.“ Konurnar muna eftir hangikjöti, sviðum, lambahrygg og sumar eftir rjúpu í jólamatinn í æsku sinni rétt fyrir og eftir stríðsárin.

Kjúklingar, kalkúnar og hamborgarhryggir virðast hafa komið seinna á sjónarsviðið.

Að mati þeirra heldur eldra fólkið meira í hefðirnar í kringum hátíðirnar. Þær segja mikla breytingu hafa orðið á undirbúningnum á síðustu áratugum. Á árum áður hafi verið mun meira bakað fyrir jólin og sett í dunka og allt falið uppi í skáp fram að jólum. Þær segjast sjálfar bjóða upp á sinn bakstur á aðventunni frekar en að bíða.

Eplin eru í hávegum höfð hjá þessari kynslóð. Í kringum stríðsárin komu epli einungis einu sinni á ári, í kringum jólin. Þau komu í stórum kössum og var lyktin af þeim mikill hápunktur fyrir jólin. Mandarínur voru ekki farnar að fást hér á þessum tíma.

Allir fengu eitthvað fyrir jólin, margir fengu hrein nærföt og náttföt, eða nýjan kjól. Síðan voru bækur vinsælar, og hin hefðbundna gjöf kerti og spil. Konurnar segja að meiri jöfnuður hafi ríkt í jólagjöfum á þessum tíma.

Ágústa Hjálmsdóttir
Allt gert á Þorláksmessu

Ágústa Hjálmsdóttir, 79 ára

Ágústa ólst upp í Reykjavík í minni fjölskyldu en gengur og gerist. Hún var einkabarn og voru jólin haldin ásamt foreldrum hennar og uppeldisbróður og afa.

„Þegar ég var yngri var allt gert á Þorláksmessu það mátti helst ekkert gera áður. Það var skipt um eldhúsgardínur og allt skúrað. Það var alltaf hangikjöt og rjúpa á jólunum hjá mér. Núna fer ég til barnanna minna og þau eru að breyta aðeins til og það er allt í lagi,“ segir Ágústa.

„Það voru alltaf saumuð á mig ný föt fyrir jólin og ég hélt þeim sið þegar ég fór að búa með mín fjögur börn, en ég reyni að halda þessum gömlu siðum sem ég hef haft alla tíð,“ segir Ágústa. Hún byrjar þó mun fyrr en móðir hennar og er alltaf búin að skreyta 1. desember. „Það er allt tilbúið þá nema jólapakkarnir og ég baka og hef það í boði aðventunni.“

Sem barn var hún mikið fyrir bíla og bað um þá í jólagjöf. „Ég fékk dúkkur og bollastell en engar ofsagjafir, ég fékk kannski gjafir frá fleira fólki úti í bæ, kunningjum mömmu og pabba, af því að ég var einkabarn. Bróðir mömmu sem var 11 árum eldri en ég og ólst upp hjá okkur keypti alltaf sér jólagjöf handa mér. Hann reyndi að selja blöð fyrir jólin og kaupa eitthvað. Hann hafði kannski ekki efni á því en eyddi öllum peningunum í það."

Ágústa fékk einnig í skóinn fyrir jólin en sá siður var ekki búinn að breiðast út um allt land á fimmta áratug síðustu aldar.

Ágústa segir að fólk hafi verið mjög rausnarlegt á þessum tíma og viljað gleðja hvert annað. Það sé ef til vill ein stærsta breytingin í seinni tíð. „Gjafir eru hættar að gleðja, fólk er farið að gefa peninga í jólagjöf því það veit ekki hvað það á að kaupa. Mér finnst að það eigi að gefa gjafir en ekki peninga. Svo eru gjafir orðnar svo dýrar og maður heyrir að fólk eigi bara allt. Mér finnst að það eigi að fara svolítið til baka í þessu."

Að mati Ágústu kemur mismunur fram í gjöfum hjá börnum í dag, í gamla daga hafi verið meiri jöfnuður. „Já, það var ekki eins mikill metingur og ekki eins verið að metast með hvað þau fengu í skóinn.“

„Það var mikið að gera fyrir jólin en það var ekki stress yfir gjöfum í gamla daga heldur bara að hafa hreint. Mamma skúraði allt út úr dyrum fyrir jól. Nú held ég að fólk skreyti en sé ekki eins mikið í þrifunum. Þetta breytist með útivinnu kvenna," segir Ágústa.

Anna Björk Stefánsdóttir
Torfbærinn skúraður hátt og lágt

Anna Björk Stefánsdóttir, 77 ára

Jól í torfbæ um miðbik síðustu aldar voru öðruvísi en flestir þekkja í dag. Þar kom rennandi vatn og rafmagn seint. Jólin voru þó mjög hátíðleg og þeim fylgdi mikil tiltekt, bakstur og eplalykt að sögn Önnu Bjarkar Stefánsdóttur.

„Ég er fædd og alin upp í torfbæ í Skagafirði. Það var ekkert rafmagn og það kom ekki rennandi vatn fyrr en ég var tíu ára, og sveitasíminn kom ekki fyrr en ég var 11 ára þannig að þetta var eiginlega svolítið frumstætt,“ segir Anna. „En jólin voru haldin hátíðleg, allt þvegið og skúrað hátt og lágt og bakað. Það komu alltaf kassar af eplum og jólin komu þegar eplalyktin kom í bæinn. Það minnir mig enn á jólin þegar kemur eplalykt, stór og rauð epli komu í kaupstaðinn fyrir jólin.“

Jólin voru haldin í faðmi stórrar fjölskyldu og fékk Anna bækur í jólagjöf og alltaf kerti og spil. „Það var sjálfsagt og svo voru það föt og annað,“ segir hún.

„Það er orðið allt of mikið í jólagjöfum núna. Það mætti vera svolítið minna og jafnara. Við erum búin að missa smá fókus á jólunum, við vorum ánægðari með okkar fáu pakka held ég heldur en krakkarnir í dag,“ segir Anna.

Hjá fjölskyldunni voru kjötbollur á aðfangadagskvöld og hangikjöt á jóladag. „Það voru alltaf smákökur og tertur, amma var dugleg með það. Ég var ekki gömul sjálf þegar ég fór að snúa, skera út kökur og svoleiðis, mér fannst það gaman," segir Anna.

Eins og víða annars staðar var jólatréð heimasmíðað. „Það var kústskaft og á það voru boruð göt og í þau sett litlar greinar og svo var maður að búa til skraut á þau, maður safnaði öllum fallegum pappír allt árið. Allt var lýst upp með kerti og olíulampa og ég man hvað manni fannst mikil birta þegar keyptur var Aladdín-lampi, þá var miklu meiri birta og manni fannst orðið svo bjart," segir Anna.

Lagt var upp úr hreinlegheitum alls staðar. „Maður fékk jólabaðið á Þorláksmessukvöldi og þá voru alltaf sett sérstök fín rúmföt á rúmið og maður fékk ný náttföt, oftast nýjan náttkjól og undirföt. Það var passað. Það ríkir enn þá í dag sérstök stemning með þetta," segir Anna.

„Þegar útvarpið var komið, á seinni hluta barnæskunnar, þá var hlustað á jólakveðjurnar á Þorláksmessu. Ég hlusta enn þá á jólakveðjurnar á Þorláksmessu."

Erna Petra og Brynhildur
Jólatré úr kústskafti og greinum

Brynhildur Kristinsdóttir, 77 ára

„Þegar ég var sex ára áttum við ekki jólatré og mig langaði svo rosalega í jólatré. Þá var allt í einu bankað hjá okkur á aðfangadagskvöld og þá var maður með jólasveinahúfu sem var með jólatré í fanginu sem hann hafði gert úr kústskafti og sett greinar og kerti í. Þetta var svo mikil gleði að við vorum í gleðivímu systurnar þrjár allt kvöldið. Við höfðum aldrei átt jólatré fyrr. Þetta var pabbi vinkonu minnar sem færði okkur það og ég held að við höfum aldrei fengið skemmtilegri jólagjöf,“ þetta segir Brynhildur Kristinsdóttir.

Hún ólst upp í Hrísey þar sem hún átti sín æskujól og segir þessa minningu um jólatréð lifa eftir öll þessi ár. Hún lýsir miklum undirbúningi fyrir jólin. „Það þurfti að þvo hvert einasta horn, mamma var oftast að þrífa til þrjú fjögur á Þorláksmessunótt,“ segir Brynhildur.

„Við fengum snitsel í raspi á jólunum, og svo hangikjöt,“ segir Brynhildur.

„Ég fékk mikið af bókum þar sem ég var bókaormur, en systrum mínum fannst ekkert gaman að fá bækur þannig að þær fengu dúkkur og föt og smotterí,“ segir Brynhildur. „Ég man ég skreið inn í geymslu og klappaði gjöfunum.“

„Það var ekki byrjað með skóinn út í glugga hjá okkur í æsku. Þetta var frekar fátækt þorp og ekki mikið til en við fengum alltaf nýja flík og eitthvað svona fyrir jólin,“ segir Brynhildur.

Kalkúnninn komst ekki í ofninn

Erna Petra Þórarinsdóttir, 84 ára 

„Maturinn hefur dálítið breyst, kalkúninn var til dæmis ekki. Ég gerði kalkún fyrst í kringum 1950. Þá sendi mamma mér hann og var hann svo stór að hann komst ekki í ofninn hjá mér, þá hafði enginn smakkað kalkún áður,“ segir Erna Petra Þórarinsdóttir.

Erna er uppalin í Reykjavík og segir æskujólin hafa einkennst af því að allt átti að vera nýtt. „Það var þrifið og bakað eins og ég veit ekki hvað. Það voru ekki svona ofsalegar gjafir eins og núna en maður fékk alltaf ný nærföt eða náttföt eða eitthvað annað nýtt fyrir jólin."

„Það var alltaf mikið stúss. Það var hangikjöt á boðstólum en helst voru rjúpur á jólunum, ef það var ekki rjúpa þá var það gæs,“ segir Erna.

Hún var mikill bókaormur að eigin sögn og fékk aðallega bækur í jólagjöf. Henni finnst stærð gjafanna í dag orðin of mikil. „Þetta hefur breyst svakalega,“ segir hún.

„Í þá daga sem ég var vinnandi fyrir jólin var verið að baka þessar venjulegu smákökur, vanilluhringi, brúna lagköku og hvíta lagköku, og hálfmána. Þetta var spes fyrir jólin," segir Erna. Hún segist á sínu heimili hafa yfirleitt verið með beinlausa fugla í matinn á aðfangadag.

„Nú er enn þá verið að biðja mig um að hafa það í dag,“ segir hún og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×