Innlent

Ráðuneytið segist ætla að vanda sig

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Að mati álitsgjafa Fréttablaðsins hefði Benedikt mátt velja sér annað bindi.
Að mati álitsgjafa Fréttablaðsins hefði Benedikt mátt velja sér annað bindi. Vísir/Stefán
„Við förum náttúrlega mjög vandlega yfir þessar athugasemdir og aðfinnslur og við munum taka tillit til þess við okkar vinnu í framtíðinni. Það er alveg augljóst,“ segir Benedikt Jóhannesson harðlega.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er gagnrýnt að á árunum 2013 til 2015 hafi ráðuneytin varið um 2,5 milljörðum króna til kaupa á sérfræðiþjónustu. Í mörgum tilfellum voru kaupin ekki í fullu samræmi við lög, reglur og leiðbeiningar stjórnvalda.

Sérstaklega er gagnrýnt hvernig staðið var að viðskiptum við lögmannsstofuna Juris. Á tímabilinu greiddi ráðuneytið stofunni alls 107 milljónir króna, að stærstum hluta vegna þjóðlendumála. Samningur komst á með tölvupóstsamskiptum og í skýrslunni er gagnrýnt að ekki hafi verið staðið betur að samningagerð. Eftir að skýrslan kom út hefur verið bent á það í opinberri umræðu að eigendur Juris hafa margir gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

„Við getum auðvitað ekki breytt því sem liðið er en við munum gæta okkar í framtíðinni. Ég vil samt leggja áherslu á að þarna er ekki verið að setja út á þessa ráðgjafa sem þarna eru heldur hvernig staðið er að samningum,“ bætir Benedikt við. Hann leggur áherslu á að lögmenn stofunnar hafi sérhæft sig í þjóðlendumálum en sú vinna sé að renna sitt skeið hjá ríkinu. Benedikt útilokar þó ekki að það verði samið aftur við stofuna. „En þetta verður í það minnsta gert með öðrum hætti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×