Innlent

Landeyjahöfn hefur aldrei verið opnuð fyrr á árinu

Sveinn Arnarsson skrifar
Snemmbúinni opnun Landeyjahafnar er fagnað í Eyjum.
Snemmbúinni opnun Landeyjahafnar er fagnað í Eyjum. vísir/stefán
Herjólfur fór fyrstu ferð sína til Landeyjahafnar frá Vestmannaeyjum í gær. Mjög vel hefur gengið að moka sandi úr hafnarkjaftinum svo opna megi höfnina. Til samanburðar var höfnin opnuð 15. apríl í fyrra og 1. maí árið 2015.

„Þú getur rétt ímyndað þér hvað við erum ánægð með að hægt sé að opna höfnina svona snemma,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. „Menn munu ekki gera sér grein fyrir því hvað þetta skiptir miklu máli nema þeir búi í Eyjum eða reki fyrirtæki á staðnum. Þetta er bylting fyrir okkur að geta opnað svo snemma.“

Unnið hefur verið á dýpkunarskipinu myrkranna á milli síðusti dag. Bæði hafa verið notaðar hefðbundnar dýpkunaraðferðir en einnig hefur verið dælt niður sjó til að þyrla upp sandi sem berst svo burt með hafstraumum. Sú aðferð hefur gefist mjög vel.

„Auðvitað hefur hagstætt veðurfar haft mikil áhrif en við vonum að með þessum nýju aðferðum geti verið hægt að opna fyrr en venjulega og stórbætt samgöngur milli lands og Eyja. Ekki er vanþörf á því,“ bætir Elliði við. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

MyndFriðrik Þór Halldórsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×