Innlent

Vestmannaeyingar komust hvorki lönd né strönd í óveðrinu í gær

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnlaugur Grettisson segir það slæmt að allar samgöngur hafi legið niðri í vondu veðri sem gekk yfir landið í gær.
Gunnlaugur Grettisson segir það slæmt að allar samgöngur hafi legið niðri í vondu veðri sem gekk yfir landið í gær. vísir/óskar p. friðriksson
„Þetta er ekki gott fyrir Eyjasamfélagið, að vera alveg sambandslaust,“ segir Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs. Ekkert var siglt milli lands og Eyja í gær. Herjólfur er farinn í slipp og kemur ekki aftur til Vestmannaeyja fyrr en 19. til 20. maí. Flateyjarferjan Baldur er notuð í staðinn en ölduhæð í Landeyjahöfn var of mikil í gær til siglinga. Skipið hefur ekki leyfi til að sigla til Þorlákshafnar.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir samgönguyfirvöld sinnulaus. „Þetta tekur út yfir allan þjófabálk.“ Ábyrgðin í málinu sé ríkisins.

„Þegar kemur að samgöngum til Vestmannaeyja þá er það bæjarstjórn Vestmannaeyja sem þarf sífellt að vera á varðbergi gagnvart því hvernig hlutirnir eru gerðir. Þetta er svona álíka og að bæjarstjórnin þyrfti alltaf að fara upp í framhaldsskóla og tryggja að börnin væru örugglega að læra mannkynssögu,“ segir Elliði.

Stefnt er á að ný Vestmannaeyjaferja verði komin í gagnið sumarið 2018. Sú ferja getur siglt í meiri ölduhæð en Baldur. „En það breytir því ekki að á meðan alúð Vegagerðarinnar gagnvart samgöngum Vestmannaeyja er ekki meiri en þetta, þá verðum við í erfiðleikum.“

Það verði að gera kröfu að samgöngum til Eyja sé sinnt í samræmi við mikilvægi þeirra. Ef ríkið geti ekki sinnt verkefninu sé Vestmannaeyjabær reiðubúinn til þess.


Tengdar fréttir

Undirrita samning um smíði Herjólfs

Vegagerðin hefur samþykkt tilboð pólskrar skipasmíðastöðvar í smíði Herjólfs. Gert er ráð fyrir að nýja Vestmannaeyjaferjan hefji siglingar sumarið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×