Innlent

Viðgerðir á fangelsinu verða boðnar út í haust

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Búist er við að allt næsta ár fari í utanhússviðgerðir á húsnæðinu sem hýsti fangelsið.
Búist er við að allt næsta ár fari í utanhússviðgerðir á húsnæðinu sem hýsti fangelsið. vísir/gva
Auglýst verður eftir tilboðum í framkvæmdir við Hegningarhúsið nú á haustmánuðum. Fangelsinu var lokað í fyrravor. Til stendur að efna til hugmyndasamkeppni um framtíðarnýtingu hússins.

Ríkiseignir hafa umsjón með húsinu, líkt og öðrum fasteignum ríkisins. „Það er búið að vinna útboðsgögn út af utanhússviðhaldinu eða framkvæmdum. Það á við um veggi, glugga, þak, garðinn í kring og lóðina og drenin í kringum húsið og þess háttar þannig að þetta er töluvert verk,“ segir Snævar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ríkiseigna.

Snævar býst við að ráðist verði í verkið strax á næsta ári, þar sem ekki eru fjármunir til reiðu á fjárlögum yfirstandandi árs. Hann segir að búið sé að gera kostnaðaráætlun en um hana verði ekki upplýst áður en útboðið fer fram. Snævar hefur áður sagt við Fréttablaðið að kostnaðurinn verði ekki undir 240 milljónum.

Enn hefur ekki verið ákveðið hvaða starfsemi mun fara fram í húsinu, en meðal annars hafa verið nefndar hugmyndir um að opna þar veitingastað eða safn af einhverju tagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×