Innlent

Fjórðungur kostnaðar launa vegna verktaka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Verktakar hjá RÚV skipta hundruðum á hverju ári. Verktakasamningar hjá stofnuninni hafa verið gagnrýndir nokkuð.
Verktakar hjá RÚV skipta hundruðum á hverju ári. Verktakasamningar hjá stofnuninni hafa verið gagnrýndir nokkuð. vísir/pjetur
Hlutfall kostnaðar Ríkisútvarpsins vegna verktaka hefur verið stöðugt undanfarin ár, eða um 25 prósent af heildarlaunakostnaði. Þetta kemur fram í athugasemd Margrétar Magnúsdóttur, skrifstofustjóra RÚV, vegna fréttar Fréttablaðsins í gær.

Þannig vísar stofnunin á bug vangaveltum þingmannsins Kolbeins Óttarssonar Proppé um að verktökum fjölgi. „Maður hefur heyrt það að verktakar séu í auknum mæli að sinna starfinu og ekki bara að taka þátt og þátt, heldur séu að sinna fullri starfsskyldu en séu ekki fastráðnir starfsmenn heldur verktakar,“ sagði Kolbeinn í Fréttablaðinu í gær.

Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
Kolbeinn spurðist fyrir um málið á Alþingi og krafðist skriflegra svara frá Kristjáni Þór Júlíussyni. Í svari ráðherra, sem byggir á svari RÚV, kemur fram að verkefni þeirra verktaka sem vinna fyrir Ríkisútvarpið séu afar mismunandi, allt frá því að til dæmis tónlistarmaður komi fram í eitt skipti í einum þætti eða til dagskrárgerðar í nokkra mánuði. „Þá eru ýmis tilfallandi eða tímabundin verkefni sem ekki koma að dagskrá unnin í verktöku. Verktakar sem vinna fyrir Ríkisútvarpið samkvæmt þessari skilgreiningu skipta hund­ruðum á hverju ári,“ segir í svarinu.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, telur hlutfall verktaka vera hátt. „Miðað við eðli starfseminnar finnst mér það vera óeðlilegt hlutfall,“ segir hann og bendir á að þýðendur hafi gagnrýnt mikið verktakasamninga hjá RÚV og einnig hafi verktakasamningar við tæknimenn verið gagnrýndir.

„Það sem maður sér fyrir sér að geti verið eðlilegur hluti af verktökunni er einhvers konar þáttagerð eða því um líkt,“ segir Halldór og veltir fyrir sér hvert hlutfall verktöku af heildarlaunakostnaði sé hjá 365 í samanburði við RÚV. 365 rekur meðal annars Fréttablaðið, Stöð 2, Bylgjuna og Vísi. Fréttablaðið spurði í gær Ingibjörgu Pálmadóttur, forstjóra 365, út í málið en hefur ekki fengið svör.


Tengdar fréttir

Hefur áhyggjur af réttindum starfsmanna Ríkisútvarpsins

Þingmann VG grunar að verktökum hjá RÚV hafi fjölgað undanfarið. Nauðsynlegt sé að ríkið sýni gott fordæmi á vinnumarkaði. Menntamálaráðuneytið hefur ítrekað spurst fyrir um málið án þess að fá svör.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×