Innlent

Færri tækifæri fyrir konurnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Konur eru vistaðar í fangelsinu á Hólmsheiði og hefur fangelsinu í Kópavogi verið lokað.
Konur eru vistaðar í fangelsinu á Hólmsheiði og hefur fangelsinu í Kópavogi verið lokað. vísir/gva
Aðgengi kvenna að námi í afplánun í íslenskum fangelsum er einhæft og takmarkað miðað við það nám sem karlmönnum býðst á Litla-Hrauni. Þetta kemur fram í nýju meistaraverkefni Birnu Aðalheiðar Árdal Birgisdóttur í náms- og starfsráðgjöf.

Í Kópavogsfangelsi gátu konur einungis fengið bóklega kennslu í íslensku, ensku og stærðfræði. Engin sérstök kennslustofa var í fangelsinu, lítið næði til lærdóms og internetaðgengi verulega takmarkað.

Með tilkomu fangelsisins á Hólmsheiði munu konum standa til boða fleiri valkostir hvað varðar námsframboð en áður tíðkaðist en aðeins er boðið upp á fjarnám. Í ritgerðinni segir að aukið framboð verði á áföngum á framhaldsskólastigi þótt námsframboð muni aldrei verða líkt og þekkist á Litla-Hrauni.

Aðalheiður Ámundadóttir
Aðalheiður Ámundadóttir, stjórnarmaður í Afstöðu – félagi fanga, segir það óheppilegt að konunum á Hólmsheiði sé einungis boðið fjarnám, sem þær fái takmarkaða aðstoð við.

„Þegar ég hitti konurnar á Hólmsheiði síðast voru þær eiginlega í sjálfsnámi, þær sem voru á annað borð í einhverju námi. Það er sérstaklega erfitt fyrir þessar konur, af því að bakgrunnur margra þeirra er þannig að þær þurfa mikið aðhald og mikinn stuðning,“ segir Aðalheiður.

Hún segir að það sé mikill áhugi meðal almennings á að koma að aðstoð fyrir fanga. „Við erum til dæmis að vinna að því að koma skipulagi á sjálfboðaliðahjálp með aðstoð við heimanám,“ segir Aðalheiður og fullyrðir jafnframt að nokkrir kennarar, sem eru að nálgast eftirlaunaaldur, hafi lýst áhuga á að hjálpa. „En auðvitað þarf að setja skipulagðari ramma utan um þetta. Og stærsti vandinn er stefnumótunarvandi.“

Aðalheiður segir að skömmu eftir jól hafi verið stofnuð grúppa á Facebook sem heitir Fangahjálpin. Eftir það hafi margir góðviljaðir aðilar lýst áhuga á að gera sitt til að bæta aðstæður fanga. „Gefa bókasafninu bækur, bjóða upp á klippingu, sjálfstyrkingarnámskeið og eitt var hjálp með heimanám,“ segir hún.

Strax hafi eitt verkefni farið í gang. „Á Hólmsheiðinni er hollensk kona sem talar ensku og vildi læra íslensku. Ég auglýsti eftir íslenskukennara og hann er búinn að fara einu sinni í viku í hátt í tvo mánuði og það eru aðrar konur sem eru í undirbúningsvinnu við að búa til heimanámsvinnuhóp,“ segir Aðalheiður til útskýringar.

Aðalheiður kveðst telja að það sé vilji í fangelsiskerfinu til að bæta ýmislegt á Hólmsheiðinni. „Ég held að þetta séu bara byrjunarörðugleikar í nýju fangelsi.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×