Lífið

Halda óvenjulegt jólaball neðansjávar

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Þór Ásgeirsson segir að það sé alltaf jafn gaman á ballinu.
Þór Ásgeirsson segir að það sé alltaf jafn gaman á ballinu. Vísir/Vilhelm
Sportkafarafélag Íslands stendur fyrir óvenjulegu jólaballi fyrir félagsmenn í Silfru 20. desember.

Jólaballið, sem er árlegur viðburður, er að mörgu leyti með hefðbundnu sniði en þykir óvenjulegt fyrir þær sakir að það er haldið neðansjávar.

„Við höldum í rauninni svona hefðbundið jólaball nema ofan í vatni,“ segir Þór Ásgeirsson, formaður Sportkafarafélags Íslands. „Við sökkvum jólatré með ljósum og hátölurum ofan í gjána.“

Jólatréð er skreytt seríu og jólaskrauti. „Svo er kveikt á trénu og tónlistinni og kafararnir koma og leika sér í takt við tónlistina,“ segir Þór en jólaballið er fjölmennasta köfunin á vegum félagsins.

„Þetta er svolítið sérstakt, ég veit ekki til þess að þetta sé gert annars staðar í heiminum. Jólasveinninn kemur á svæðið og svona.“

Að sögn Þórs eru Helga Möller, Svanhildur Jakobsdóttir og Ólafur Gaukur vinsæl á ballinu.

„Það heyrist mjög vel í tónlistinni. Sumir takast í hendur og reyna að dansa eða synda í kringum jólatréð,“ segir Þór og bætir við að það megi því segja að dansað sé í kringum jólatréð á þessu óvenjulega jólaballi.

Þór segir að alltaf sé jafn gaman á ballinu. „Þarna hittast gamlir og nýir félagar, við vonum bara að veðrið verði gott, þá er hægt að fá sér smákökur og kakó á bakkanum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×