Lífið

Kenneth Máni hringdi í Útvarp Sögu eftir áskorun frá Loga

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Símtal persónunnar Kenneths Mána í símatíma á Útvarpi Sögu fer nú eins og eldur um sinu um netheima. Þar ræðir leikarinn Björn Thors við Pétur Gunnlaugsson, þáttarstjórnanda á Útvarpi Sögu, um samfélagið á gagnrýninn hátt.

Símtalið, sem má hlusta á hér að ofan, var áskorun á leikarann Björn Thors frá Loga Bergmann, en Björn er gestur Loga í þætti hans í kvöld. „Okkur langaði að leggja fyrir hann próf, hversu góður hann væri sem Kenneth Máni. Og það er auðvitað engin betri leið til þess en að hringja í Útvarp Sögu,“ útskýrir Logi og heldur áfram:

„Við vildum athuga hvað hann gæti haldið Pétri Gunnlaugssyni lengi á línunni. Hann nær að teygja sig í átta mínútur, sem er ansi vel gert. Og það er ekkert samhengi í því sem hann er að segja, ekkert samhengi.“ Logi hlær þegar hann leggur áherslu á að samhengisleysið í orðum Kenneths Mána og útskýrir nánar:

„Hann talar meðal annars um að fara í fangelsi og borga sína skuld, en þurfa samt að borga skatta þegar hann kemur út. Þetta er auðvitað stórkostleg lína. Hann spurði líka: „Hvar er skjaldborgin?“ og Pétur var alveg með á því.“

Það vakti líka athygli að bjallan fræga, sem notuð er til að láta fólk vita þegar tími þess er búinn í símatímanum, glumdi aldrei.

„Já, sko, ég held að hann hafi bara aðeins náð honum með talinu um skjaldborgina. Ég held að Pétur hafi gaman af því að fara yfir hvar skjaldborgin sé. Ég held að honum hugnist það umræðuefni svolítið.“

Þáttur Loga verður á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19:45 í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×