Viðskipti erlent

Air France fækkar störfum um 7.500

Andri Eysteinsson skrifar
Air France-KLM er annað stærsta flugfélag Evrópu.
Air France-KLM er annað stærsta flugfélag Evrópu. Getty/Chesnot

Talsverður samdráttur verður hjá franska flugfélaginu Air France en Air France-KLM hefur ákveðið að fækka starfsfólki í franska hluta félagsins um 7.500.

Félagið er næst stærsta flugfélag Evrópu og verður 6.560 starfsmönnum Air France sagt upp eða ekki ráðið í störf þeirra að nýju, sömu sögu má segja um 1.020 starfsmenn hjá innanlandsflugfélaginu Hop! BBC greinir frá því að í yfirlýsingu félagsins segi að batinn vegna kórónuveirufaraldursins verði hægur og óvissan sé mikil.

Tekjur félagsins minnkuðu um 95% á meðan faraldurinn stóð sem hæst og er greint frá því að félagið hafi tapað allt að 15 milljónum evra á degi hverjum.

Félagið gerir ekki ráð fyrir því að flug og starfsemi komist í sama horf fyrr en árið 2024 en störfunum verður fækkað í skrefum á næstu þremur árum.

Alls eru starfsmenn Air France um 41.000 talsins en starfsmenn Hop! eru um 2.000. Stefnt er að því að um helmingur þeirra starfa sem fækkað verður verði vegna starfsmanna sem hætta eða setjast í helgan stein og ekki verði endurráðið í störfin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×