Samstarf

Umferðarofsi stofnar veg­far­endum í hættu

Umferðarátak 2024
Oft er okkur það talsverð áskorun að sýna hvert öðru tillitssemi í umferðinni en það getur verið lífsnauðsynlegt að hemja skapið svo öryggi allra sé tryggt.
Oft er okkur það talsverð áskorun að sýna hvert öðru tillitssemi í umferðinni en það getur verið lífsnauðsynlegt að hemja skapið svo öryggi allra sé tryggt. Vilhelm Gunnarsson

Vísir, Bylgjan, Stöð 2 og Samgöngustofa standa fyrir sérstöku umferðarátaki í sumar og undir þeim merkjum var meðal annars fjallað um hvert hliðarbilið milli ökutækja og reiðhjóla á að vera þegar tekið er fram úr.

Samkvæmt lögum skal það vera að lágmarki 1.5 metrar en í gær vakti athygli frétt hér á Vísi þar sem lágmarks hliðarbil virtist ekki hafa verið virt við framúrakstur. 

Í fréttinn er ökumaður jeppa með kerru í eftirdragi sagður hafa ekið of nálægt hópi hjólreiðafólks og legið á flautunni allan tímann sem það tók að komast fram úr hópnum.

Án þess að hér verði fullyrt neitt um hugarástand viðkomandi ökumanns hvarflar óneitanlega að lesendum slíkra frétta að pirringur komi við sögu. Þá rennir lestur athugasemda við fréttina á samskiptamiðlinum facebook stoðum undir það.

Almennt gáleysi afleiðing „Road rage“

Umferðarofsi eða Road rage er þekkt fyrirbæri og samkvæmt tölum AAA (the American Automobile Association, Inc.) frá 2019 finna allt að 80% ökumanna fyrir umferðarofsa. Leiða má líkum að því að hlutfallið sé eitthvað svipað annarsstaðar, líka hér.  Reiði fylgir skert dómgreind og þá mögulega hættuleg og óörugg hegðun í kjölfarið. 

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu segir umferðarofsa þekkt fyrirbæri þó ekki séu til opinberar tölur yfir fjölda slysa hér á landi þar sem umferðarofsi hafi verið orsakavaldur.

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu

„Það eru vissulega til tilfelli þar sem greint er frá því að ökumenn hafi snöggreiðst vegna háttarlegs annars ökumanns. Það er þó alveg klárlega vanskráð þar sem ökumenn eru sjaldnast viljugir að greina frá slíkri eigin hegðun. Of hraður akstur, ekið yfir á rauðu ljósi og almennt gáleysi getur verið afleiðing af road rage sem svo aftur getur leitt til slyss,“ segir Gunnar. 

Þolum illa að einhver sé fyrir okkur

Ólíkar ástæður geti legið að baki þess að reiðin blossi upp, almennt stress, þung umferð en kannski sérstaklega þegar ökumönnum finnst einhver vera fyrir þeim. Þá rjúki rökhugsun út í veður og vind. 

„Það sem algengast er að leysi úr læðingi slíka hegðun er ef svínað er á ökumenn, skipt um akrein fyrir framan þá eða ókurteis hegðun annarra svo sem flaut, steyttur hnefi osfrv. Einnig getur fólk ákveðið að elta uppi aðra bílstjóra og hefna sín á einhverju sem þeim fannst illa gert af viðkomandi - slíkur eltingaleikur getur auðveldlega valdið slysi. Ef fólk er þegar orðið seint, hugsanlega vegna þess að umferðin er þyngri en búist var við, þá getur það ennfremur leitt til þess að fólki finnst það verða að flýta sér meira en öruggt er og ekur þá ýmist of hratt, yfir á rauðu ljósi, stundar svigakstur eða annað sem hugsanleg sparar þeim örfáar sekúndur," segir Gunnar.

Hvernig eigum viðað hemja skap okkar í umferðinni? 

„Leiðir til að hemja okkur eru líklega frekar fyrir sálfræðinga að svara en fyrst og fremst snýst þetta auðvitað um að gagnrýna eigin viðbrögð.  

Ef fólk snöggreiðist að átta sig á því að viðbrögðin séu ekki skynsamleg og ná sér niður aftur frekar en að bregðast við í verki.

Og svo auðvitað bara að leggja tímanlega af stað, gefa okkur góðan tíma og gera ráð fyrir umferðarteppu ef við erum að aka á þeim tíma sólarhrings.  Almennt séð, ef fólk finnur oft fyrir road rage, gæti verið tilefni til að leita til sálfræðings og læra að hemja þess háttar viðbrögð,“ segir Gunnar.

Bylgjan, Vísir, Stöð 2 og Samgöngustofa standa nú fyrir átaki um að sýna ábyrgð í umferðinni. Góður hópur samstarfsaðila leggur átakinu lið; F.Í.B, Hopp, Hreyfill, Höldur Bílaleiga Akureyrar, Sniglar - Bifhjólasamtök lýðveldisins og Steypustöðin. Tökum höndum saman og sýnum ábyrgð í umferðinni alla daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×