Skoðun

Ég þarf bara að gera eitt og svo lagast allt

Sólveig María Svavarsdóttir skrifar

Lífið getur verið flókið og verkefnin mörg og misjöfn. Við þurfum að klára þetta og græja hitt. Þegar „þessu“ lýkur verður allt betra. Þegar ég er búin/n með þetta nám eða búin/n að vinna mér þetta inn verður líður mér betur. Þetta lagast allt þegar ég fer til útlanda!

Mörg okkar kannast sennilega við eitthvað af ofangreindu. Að vera ekki stödd hér og nú heldur hugsi vegna fortíðar eða framtíðar. Telja grasið grænna hinum megin og vera hlaðin verkefnum. Hlaupa svo hring eftir hring í hamstrahjóli lífsins. Það er sannarlega krefjandi að vera fangi eigin höfuðblaðurs og samfélags sem vill þú haldir öllum boltum á lofti. Samfélags sem er sennilega allt of kröfuhart fyrir mörg okkar.

Það er algjörlega tímabært að nema staðar. Átta okkur á því sem er að gerast hér og nú og temja okkur þá list að upplifa og vera. Fara í uppreisn gegn hinu svokallaða normi.

Ég hvet þig sem og alla að forgangsraða í lífinu. Finna út það sem skiptir máli - sleppa tökunum á öðru. Einfalda og fækka áreitum. Boltar mega falla og hamstrahjólið má stöðva. Prófaðu að taka skref fyrir skref í meðvitund og gæta vel að jafnvægi milli hvíldar og áreynslu.

Það er hægt að vera sofandi í vöku og sjá allt í móðu. Opnaðu augun, hlustaðu og finndu. Taktu eftir því hvernig laufin bærast í vindinum. Umfram allt ferðastu hægt og í vitund!

Höfundur er grunnskólakennari og fjögurra barna móðir.




Skoðun

Sjá meira


×