Lífið

Galliano verslaði í Jör

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Guðmundur Jörundsson
Guðmundur Jörundsson
„Þeir voru bara aðeins að tékka á búðinni okkar. Þeim leist mjög vel á enda versluðu þeir slatta hjá okkur,“ segir Guðmundur Jörundsson, fatahönnuður og eigandi JÖR, en tískuhönnuðurinn heimsfrægi John Galliano kom í verslunina hans í fyrradag ásamt kærasta sínum, Alexis Roche, og ritstjóra bandaríska tímaritsins Vogue.

Eyddu þeir félagar góðum klukkutíma í versluninni, skoðuðu frumgerðir af fyrri línum og tylltu sér svo niður í kaffi og spjölluðu við starfsfólk. Voru þeir einstaklega viðkunnanlegir og alveg lausir við alla stjörnustæla.

Ásamt því að heimsækja verslunina fór Guðmundur með þá í Hörpuna. „Vinur minn bað mig að fara með þeim á söfn og sýna þeim borgina. Þeir voru mjög hrifnir af Hörpunni og einnig Ásmundarsafni,“ segir Guðmundur. Auk þess kíktu þeir í Bláa lónið í gær.

Galliano var nýlega ráðinn til tískuhússins Maison Martin Margiela og verður fyrsta lína hans fyrir merkið sýnd í London þann 12. janúar á næsta ári, samkvæmt frétt bresku síðunnar The Business of Fashion.

Ekki er vitað hversu lengi þeir muni dvelja á landinu eða hvort tilgangur heimsóknarinnar er viðskiptalegs eðlis eða eingöngu til ánægju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×