Sport

Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni úr takti við raunveruleikann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba og Anthony Martial hjá Manchester United eru báðir sagðir vera í hópi fimm launahæstu leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar.
Paul Pogba og Anthony Martial hjá Manchester United eru báðir sagðir vera í hópi fimm launahæstu leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar. Getty/Simon Stacpoole

Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta hafa ekki þurft að kvarta mikið yfir launum sínum undanfarið en aðrir í Englandi kvarta hins vegar yfir viðbrögðum þeirra nú þegar herðir að vegna baráttunnar við kórónuveiruna.

Tekjur ensku úrvalsdeildarliðanna hafa gufað upp eftir að leik var frestað en þau þurfa samt sem áður að greiða leikmönnum sínum ofurlaun. Það þarf því ekki að koma mörgum á óvart að þetta ástand gengur ekki upp að óbreyttu.

Ekkert kom samt út úr fyrstu viðræðum á milli ensku úrvalsdeildarinnar og leikmannasamtakanna en stefnan var að búa til eina heildaraðgerð varðandi launagreiðslur leikmanna.

Telegraph segir nú að ensku úrvalsdeildarfélögin óttist núna það að þeim takist ekki að semja um launalækkun við leikmenn í deildinni.

Þessar fréttir komu samt út sama dag og knattspyrnustjóri Bournemouth, Eddie Howe, bauðst til að taka á sig verulega launalækkun vegna ástandsins.

Það er mikil óvissa um framhaldið þótt að enska úrvalsdeildin ætli að reyna allt til að klára tímabilið og bjarga eitthvað af tekjunum. Það gæti hins vegar bara verið sjónvarpstekjur því það verður líklegra með hverjum deginum að þessir leikir verði spilaðir án áhorfenda.

Á tímum þar sem mörgum finnst að hinir launaháu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar eigi að standa með samfélaginu stinga svona fréttir vissulega í augun. Það er líka líklegt að þetta viðhorf gæti farið langt með að lama starfsemi sumra félaganna í næstu framtíð.

Leikmannasamtökin standa greinilega vel með sínum skjólstæðingum en það sjá það allir að þeir verða líka að taka þátt í að bjarga framtíð ensku úrvalsdeildarinnar áður en það verður of seint.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×