Sport

Borgar­stjóri Parísar synti í Signu: „Ekkert of hættu­legt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, sést hér synda í Signu í dag.
Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, sést hér synda í Signu í dag. Getty/Pierre Suu

Parísarbúar gera nú allt til þess að sannfæra allan heiminn um það að það sé í lagi að synda í ánni Signu. París segir að takist hafi að hreinsa skítugu ána þeirra fyrir Ólympíuleikana.

Ólympíuleikarnir hefjast í París eftir rúma viku og meðal keppnisstaðanna er áin Signa sem rennur í gegnum París. Setningarhátíðin fer fram í bátum á Signu en það verður líka keppt þar í þríþraut og útisundi.

Bannað í hundrað ár

Það hefur ekki mátt synda í Signu í yfir hundrað ár vegna óþrifnaðar og hættulegra sýkla og baktería en París eyddi risastórum upphæðum í að hreinsa ána.

Hættulegrar bakteríur hafa þó haldið áfram að finnast í ánni á síðustu mánuðum en forráðamenn leikanna fullyrða að það verði hættulaust fyrir fólk eins og íslensku þríþrautarkonuna Guðlaugu Eddu Hannesdóttur að synda í Signu.

Það var því táknrænt þegar Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, synti sjálf í Signu í dag.

E. Coli á undanhaldi

Síðustu mælingar eru sagðar hafa komið vel út út og borgarstjórinn stakk sér til sunds í dag. E. Coli bakteríurnar eru á undanhaldi og því stóð hún við loforð sitt.

Hidalgo fylgdi þá í fótspor íþróttamálaráðherrans Amelie Oudea-Castera sem synti í Signu um helgina. Bæði Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Thomas Bach forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, hafa líka lofað því að synda í ánni.

Keppir 31. júlí

„Vatnið er virkilega gott. Svolítið kalt en ekkert of hættulegt,“ sagði Anne Hidalgo eftir sundið.

Þríþrautarkeppnin fer fram 30. og 31. júlí en Guðlaug Edda keppir seinni daginn. Það verður því komin reynsla á aðstæður eftir keppni karlanna daginn áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×