Lífið

Óttaslegin um að barnið hennar dragi ekki andann á morgun

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Sara Dögg er eins og hálfs árs.
Sara Dögg er eins og hálfs árs. mynd/einkasafn
„Við vildum halda þetta kvöld til að foreldrar hennar gætu fengið einhverja aðstoð. Móðir hennar er komin með kvíða og alltaf óttaslegin um að barnið hennar dragi ekki andann á morgun,“ segir Margrét Gunnarsdóttir í hópnum United Reykjavík.

Margrét er ein fjögurra aðila sem skipuleggja styrktarlofgjörðarkvöld í kvöld til styrktar fjölskyldu Söru Daggar, sem er eins og hálfs árs. Sara er lítil hetja sem hefur síðasta hálfa árið barist við óþekktan sjúkdóm.

Kvöldið byrjar klukkan 20.00 í kvöld og er haldið í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu. United-hópurinn er þó ekki tengdur inn í kirkjuna heldur hefur aðeins aðsetur þar og heldur sínar samkomur í kirkjunni á hverju mánudagskvöldi.

„Þetta er styrktarkvöld og það kostar ekkert inn. Það eru allir velkomnir að koma og tökum við á móti frjálsum framlögum. Það verður baukur við innganginn og baukur látinn ganga á milli manna,“ segir Margrét.

Sjúkrasaga Söru Daggar er rakin á Facebook-síðu fyrir styrktarkvöldið en í júní á þessu ári, þegar Sara Dögg var eins árs, þurfti í fyrsta sinn að hnoða lífi í Söru Dögg. Móðir hennar sá um hjartahnoðið með neyðarlínuna í símanum og þá greindist Sara Dögg með hjartagalla. Hún er með of langt QT-bil í hjarta sem veldur hjartsláttaróreglu og getur valdið skyndidauða.

Margrét Gunnarsdóttir.
Sara Dögg missir meðvitund í tíma og ótíma og hefur farið í alls konar rannsóknir til að komast að því hvað veldur því. Enn sem komið er hafa foreldrar hennar ekki fengið svör við því af hverju hún missir meðvitund og lifa því í algjörri óvissu.

Margrét hefur séð Söru Dögg í þessu ástandi þar sem hún missir meðvitund.

„Móðir hennar kom með hana á samkomu fyrir tveimur vikum síðan og þá gerðist þetta fyrir framan okkur öll. Það var mjög óhugnanlegt. Ég er nýbúin að eignast barn sjálf og vissi ekki hvert ég ætlaði,“ segir hún.

Margrét og félagar hennar eru búin að safna á styrktarsíðu fyrir Söru Dögg síðasta mánuðinn.

„Við erum búin að safna meira en ég átti von á,“ segir Margrét en þeir sem vilja styrkja fjölskyldu Söru Daggar er bent á reikningsnúmerið 552-26-100101 og kennitöluna 0609872629. Markmið Margrétar og vina hennar er að styrkja fjölskylduna eins og þau geta, en foreldrar Söru Daggar eiga einnig aðra stúlku sem er sex ára.

„Þau vita ekkert með framhaldið en eru að reyna að fá það í gegn að hún fái læknishjálp erlendis. Móðir hennar er gömul vinkona mín og hún byrjaði að koma á samkomur hjá United því hún var með svo mikinn kvíða. Það hjálpaði henni mikið að koma og sagði hún sjálf að þetta hefði verið eins og einhver hefði tekið fimmtíu kíló af bakinu hennar,“ segir Margrét.

United Reykjavík var stofnað árið 2011 og er hópurinn byggður á kristilegum gildum. Allir eru velkomnir á samkomur hópsins, sama hverrar trúar þeir eru. Á hverja samkomu á mánudagskvöldum koma allt frá 150 til 300 manns og er um hjálparstarf að ræða fyrir þá sem til dæmis berjast við kvíða, ótta eða vanmáttarkennd eða þá sem hafa verið í fíkniefna- og áfengisneyslu og vilja snúa við blaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×