Sport

Haraldur Hugosson: Margt breyst á síðustu árum og í­þróttin hefur lyft sér á næsta stig

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Haraldur Hugoson.
Haraldur Hugoson. Vísir/Einar Árnason

Bandý er ört vaxandi íþrótt á alþjóða- og landsvísu. Íslenska landsliðið undirbýr sig nú fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins með æfingaleikjum gegn Bandaríkjunum og Kanada. 

„Margir þekkja þetta úr skólaleikfimi, krakkar spila svolítið óheflað en svo þegar komið er í keppni er þetta fastara í forminu. Fimm á móti fimm, markmenn í hvoru liði. 

Svolítið eins og hokkí, nema innanhús, öxl í öxl, hraðir leikir þar sem er lagt mikið upp úr tækni, hraðar skiptingar og mikil snerpa. Markmiðið er að sjálfsögðu að skora í hitt markið.“ Svo lýsti Haraldur Hugosson, formaður Bandýsambands Íslands íþróttinni. 

Auknar vinsældir undanfarin ár og stefnan sett á HM

Bandý hefur notið aukinna vinsælda hér í landi síðastliðin ár, tvö félög starfrækja nú skipulegt ungmennastarf, HK í Kópavogi og Samherji á Akureyri. Haraldur sagði þetta mikilvægt fyrir uppgang íþróttarinnar. 

„Það hefur margt breyst á síðustu tíu árum, félög eru komin með skipulagt ungmennastarf, það hefur breytt miklu síðustu ár. Það hefur lyft þessu á næsta stig þrátt fyrir að íþróttin hafi verið hér öll þessi ár.“

Íslenska landsliðið freistar þess að komast á heimsmeistaramótið í bandý sem fer fram á næsta ári. 

„Við erum að freista þess í fimmta skipti að komast á lokamót HM, undankeppnin er í janúar og markmiðið er að komast á lokamótið í desember á næsta ári. Íslenska landsliðið er samansett af mönnum sem eru að spila í 'semi-pro' deildum í Evrópu, reyndum leikmönnum hérlendis og svo ungum strákum sem komu hafa verið að æfa gegnum yngri flokkanna.“

Klippa: Haraldur Hugoson, formaður Bandísambands Íslands

Lokahönd undirbúnings lögð gegn Bandaríkjunum og Kanada

Æfingamót fer fram hérlendis um helgina, Ísland tapaði fyrsta leik í gær 5-6 gegn Bandaríkjunum og mætir svo Kanada síðar í dag. Fylgjast má með leikjum liðsins í beinni útsendingu á Facebook síðu Bandýsambandsins. 

„Hérna um helgina erum við að leggja lokahönd á okkar undirbúning og höfum boðið landsliðum Bandaríkjanna og Kanada að taka þátt í æfingamóti.“ 

Íþróttin er ört vaxandi á alþjóðavísu. Samkvæmt Alþjóðabandýsambandinu eru yfir 5.000 bandýlið á heimsvísu sem telja meira en 350.000 leikmenn. Mestar eru vinsældirnar í Svíþjóð, Finnlandi og Sviss en auknar vinsældir má finna í fleiri heimsálfum. 

„Ekki bara að mínu mati, tölurnar segja það. Þetta er að vissu leyti einföld íþrótt, það er ekki flókið að byrja þannig að þetta hefur verið að vaxa og síðustu ár kannski sérstaklega í N-Ameríku og Asíu.“

Haraldur sagði að lokum ekkert standa í vegi fyrir góðan árangur Íslendinga í íþróttinni. 

„Innanhúsíþrótt sem við getum æft allt árið um kring. Viljinn og skapið sem við höfum mikið hérna [gæti nýst okkur vel], svo er það tæknin og starfsemin [á Íslandi] sem er að vaxa úr grasi og verða meira afreksmiðuð.“

Viðtalið allt við Harald má sjá í spilaranum að ofan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×