Fleiri fréttir

Kínverjar vígja risabrú: 42 kílómetrar að lengd

Kínverjar vígðu í dag lengstu sjávarbrú jarðar en hún er 42 kílómetrar að lengd. Brúin tengir hafnarborgina Qingdao í austurhluta landsins við Huangdao eyju. Samkvæmt ríkisútvarpi Kína kostaði brúin 1,5 milljarða bandaríkjadala en breska blaðið The Telegraph fullyrðir að kostnaðurinn hafi numið 8,8 milljörðum. Brúin, sem er studd af rúmlega fimm þúsund brúarstólpum var rúm fjögur ár í byggingu. Hún er samkvæmt Heimsmetabók Guinnes rúmum fjórum kílómetrum lengri en brú í Louisiana í Bandaríkjunum sem áður var lengsta brú yfir vatn í heiminum.

Vilja veita konum byr undir báða vængi

Í júlí munu tvær vinkonur ferðast um hálendi Íslands á svifvængum í nafni UN Women á Íslandi til að hvetja landsmenn til að skrá sig sem styrktaraðila.

Lögfræðingur Hauks segir tveggja ára dóm koma verulega á óvart

Lögfræðingur Hauks segir tveggja ára dóm koma verulega á óvart Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi starfsmaður Landsbankans, var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Lögfræðingur hans segir niðurstöðuna koma sér á óvart.

Dómari í Exeter málinu tengdur Byr

Einn af dómurunum í Exeter málinu starfar sem forstöðumaður lögfræðisviðs í fyrirtæki þar sem stærsti eigandinn er Byr. Ekki var farið fram á vanhæfi hans vegna þessa.

Með matarolíu í tönkunum

Í september næstkomandi hyggst hollenska flugfélagið KLM fylla á eldsneytistanka sína með matarolíu sem notuð hefur verið til steikingar á frönskum kartöflum. Tilgangurinn er að draga úr losun koldíoxíðs.

Halli ríkissjóðs veldur titringi

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær að hann vænti þess að samkomulag náist um ríkisfjármál á næstu vikum. Glímt er um hvernig ná skal niður skuldum ríkissjóðs sem nálgast 14,3 trilljóna dala þak sem sett hefur verið. Eftir 2. ágúst segist fjármálaráðuneytið ekki fært um að standa við skuldbindingar.

Ráðinn framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala

Ólafur Baldursson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri lækninga í nýju stjórnskipulagi Landspítala frá og með 1. júlí 2011. Framkvæmdastjóri lækninga hefur meðal annars það hlutverk að samhæfa faglega þætti í starfsemi spítalans, stuðla að öryggi, gæðum og hagkvæmni, innleiða nýjungar og breytingar, stuðla að framþróun og styðja við kennslu- og vísindastarf.

Víðir í öðru sæti í verðkönnun ASÍ - Bónus oftast með lægsta verðið

Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á matvöru í lágvöruverðsverslunum og þjónustuverslunum víðsvegar um landið síðastliðinn mánudag. Verslunin Víðir, sem er nú með í verðkönnun í fyrsta skipti, var næst oftast með lægsta verðið. Hagkaup var oftast með hæsta verðið í könnuninni. Kostur Dalvegi neitaði þátttöku í könnuninni, að því er fram kemur á í tilkynningu frá ASÍ

Bensínlítrinn hækkar um fjórar krónur

Verð á bensínlítranum hækkaði um fjórar krónur í dag hjá öllum bensínstöðvum að undanskildum Atlantsolíu og Orkunni, sem enn hafa ekki hækkað sitt verð.

Samningar um forvarnarskoðanir framlengdir til áramóta

Sjúkratryggingar Íslands hafa framlengt samning við tannlækna um forvarnarskoðanir þriggja, sex og tólf ára barna, til áramóta. Samkvæmt samningnum senda tannlæknar reikninga beint til Sjúkratrygginga án milligöngu sjúklingsins og er greitt fyrir skoðunina að fullu.

Aftur dæmdur fyrir vörslu barnakláms

Tæplega þrítugur karlmaður var í dag dæmdur í 6 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir vörslu barnakláms. Þetta er í annað skipti sem maðurinn er dæmdur fyrir slíkt brot, en fyrir fimm árum fékk hann 8 mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir að hafa barnaklám undir höndum.

15 metra reglan: Gjaldskráin lækkuð og tveir kostir boðnir

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að lækka gjaldskrá fyrir viðbótarþjónustu vegna sorpíláta sem standa lengra en 15 metra inni á lóð. Gjaldið lækkar úr 4.800 krónum niður í 4.000 krónur á ári á hvert sorpílát miðað við losun á tíu daga fresti. „Gjaldið verður aðeins 2.000 krónur á ári ef losað er á 20 daga fresti,“ segir ennfremur í tilkynningu frá borginni en þetta var samþykkt á fundi borgarráðs í dag.

Þúsund börn fá ókeypis tannlæknaþjónustu

Langflest börn frá tekjulágum heimilum sem sótt var um endurgjaldslausa tannlækningar fyrir fengu samþykkta umsókn. Lokið hefur verið við að afgreiða allar umsóknir sem bárust um endurgjaldslausar tannlækningar fyrir börn frá tekjulágum heimilum Umsóknir komu frá 645 umsækjendum sem sóttu um fyrir 1335 börn frá öllu landinu. Meðalaldur barnanna sem sótt var um fyrir var 9 ár og elstu börnin voru 17 ára. Um 80% umsókna voru samþykktar eða fyrir ríflega 1000 börn. Ástæða synjunar var yfirleitt að umsækjendur voru yfir þeim tekjuviðmiðum sem sett voru. Samþykktar umsóknir dreifðust jafnt á milli íbúa í Reykjavík og utan hennar og kynskiptingin var einnig jöfn. Langflestir þeirra sem sóttu um endurgreiðslu ferðakostnaðar fengu það samþykkt.

Slys á Suðurlandsvegi

Slys varð á Suðurlandsvegi við Ingólfsfjall nú fyrir stuttu þegar vörubíll keyrði inn í fólksbíl.

Íbúi í Mörk tók fyrstu skóflustunguna

Fyrsta skóflustungan var í gær tekin að byggingu tengigangs milli þjónustuíbúðanna við Suðurlandsbraut 58 - 62 og hjúkrunarheimilisins við Suðurlandsbraut 66. Magnhildur Sigurðardóttir tók fyrstu skóflustunguna en hún var ein af þeim fyrstu sem flutti inn fyrir rúmu ári. Íbúar þjónustuíbúðanna njóta margskonar þjónustu sem veitt er í þessu húsi og yfir vetrartímann þykir nauðsynlegt að hafa innangengt milli húsanna. Arkitektastofan Yrki sá um hönnun tengigangsins og burðarþols- og lagnahönnun var í höndum Hnit verkfræðistofu og Verkhönnun hannaði raflagnir. Verkið var boðið út í lokuðu útboði og það var verktakafyrirtækið Atafl ehf sem átti lægsta tilboð. Verklok á tengiganginum sjálfum er 1. desember næstkomandi en fullnaðarfrágangi á að ljúka fyrir 1. maí á næsta ári og þar með talinn lóðarfrágangur. Í þessum áfanga verður lokið við ganginn sjálfan og lóðina en þjónusturými sem myndast undir ökurampi verður innréttað síðar. Útleiga fór vel af stað síðastliðið sumar og hefur heldur bætt í undanfarnar vikur. Nú eru 44 íbúðir leigðar út og á næstu vikum bætast átta við þannig að leigðar íbúðir verða fljótlega orðnar 52 eða nákvæmlega tvö hús af þremur verða komin í útleigu.

Haukur Þór í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt

Haukur Þór Haraldsson var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stundu. Haukur Þór starfaði hjá Landsbankanum fyrir hrun og var sakfelldur fyrir að hafa eftir bankahrunið millifært 118 milljónir króna af reikningi félagsins NBI Holdings Ltd. 8. október 2008 inn á eigin reikning. Þetta er í annað sinn sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmir í þessu sama máli. Við fyrri meðferð málsins var hann sýknaður í héraði en Hæstiréttur ómerkti þann dóm og vísaði honum aftur til efnislegrar meðferðar. Félagið NBI Holdings, sem var í eigu sjálfseignarsjóðs á Guernsey og laut stjórn Hauks, hafði legið í dvala í hálfan áratug, en var áður notað af bankanum til að halda utan um eignarhluti í fjármálafyrirtækjum sem hefðu komið til frádráttar eigin fjár bankans ef þeir hefðu verið í efnahagsreikningi hans. Haukur segist hafa ætlað að bjarga fénu frá því að verða að hverri annarri kröfu í þrotabú bankans síðar meir. Auk tveggja ára fangelsis þarf Haukur að greiða verjanda sínum ríflega fjórar milljónir króna

Vegagerðin stöðvaði leyfislausa bílstjóra við Leifsstöð

Eftirlitsmenn frá Vegagerðinni fóru í gær í eftirlitsferð á bílastæði Keflavíkurflugvallar í gær og athuguðu leyfi þeirra aðila sem voru með hópbifreiðar og leigubíla á svæðinu. Í ljós kom að nokkrir aðilar voru ekki með sín leyfismál í lagi og voru þeir sendir af vettvangi með aðstoð lögreglu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Staðfestir að óformleg samskipti áttu sér stað

Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, staðfestir að óformleg samskipti hafi átt sér stað á milli embættisins og lögreglu við rannsókn á barnaníði í Vestmannaeyjum. Hún tekur þó fram að ríkissaksóknari hafi ekki haft áhrif á endanlega ákvarðanatöku sýslumannsins á Selfossi varðandi gæsluvarðhald, enda ekki með málsgögn undir höndum. Það er í samræmi við yfirlýsingu Ólafs Helga Kjartanssonar sem hann sendi frá sér í gær vegna málsins og tekur þar fulla ábyrgð á þeirri ákvörðun að krefjast ekki gæsluvarðhalds yfir manninum sem nú er til rannsóknar eftir að myndir og myndbönd af honum að nauðga stjúpdóttur sinni komust í hendur lögreglu. „Settur saksóknari kaus að lýsa því, við flutning kröfunnar fyrir Héraðsdómi Suðurlands, sem mistökum Lögreglustjórans á Selfossi að hafa ekki gert kröfu um gæslu yfir meintum geranda. Þetta gerir saksóknarinn vitandi vits að óformleg samskipti höfðu farið fram milli embættanna um mögulega gæsluvarðhaldskröfu bæði við upphaf máls, þegar upplýsingar um myndefnið lágu fyrir og við ábendingar barnaverndarnefndar Vestmanneyja í mars s.l. Niðurstaða þeirra samskipta var samdóma álit um að ekki skyldi krefjast gæsluvarðhalds. Ábyrgðin á þeirri ákvörðun er hinsvegar lögreglustjórans."

Ákvörðun um áfrýjun tekin á næstunni

Ríkissaksóknari mun innan tíðar taka ákvörðun um hvort áfrýjað verði til Hæstaréttar niðurstöðu héraðsdóms í Exeter-málinu. Í gær sýknaði héraðsdómur fyrrverandi sparisjóðsstjóra Byrs, fyrrverandi stjórnarformann Byrs af ákæru um umboðssvik. Fyrrverandi forstjóri MP Banka var einnig sýknaður af ákæru um hlutdeild í umboðssvikum og peningaþvætti. Dómurinn klofnaði í málinu og vildi einn dómari sakfella stjórnendur Byrs.

Hafna því að ráðuneytin hafi ekki yfirsýn yfir keypta þjónustu

Forsætisráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna nýrrar skýrslu Ríkisendurskoðunar sem fjallar um greiðslur ráðuneyta til starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Ráðuneytið segist fagna því að fram komi með skýrum hætti í skýrslunni að Ríkisendurskoðun hafi enga ástæðu til þess að ætla að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt með svari forsætisráðherra.

Nýr formaður UVG leggur áherslu á frið og jafnrétti

Snærós Sindradóttir er nýr formaður Ungra vinstri grænna eftir að Guðrún Axfjörð Elínardóttir lét af embætti af persónulegum ástæðum. Snærós var varaformaður hreyfingarinnar og starfar hún sem formaður fram að næsta landsfundi sem haldinn verður í september. Snærós stefnir þá á að bjóða sig fram til áframhaldandi setu sem formaður en hún hefur áður starfað sem formaður Ungra vinstri grænna í Reykjavík. . Snærós leggur í sínu starfi mesta áherslu á friðarmál og jafnréttismál, og finnst blasa við að aukið jafnrétti leiði til aukins friðar og öfugt. Eins og alþjóð er kunnugt um hafa skapast miklar deilur innan Vinstri grænna vegna ýmissa mála, sér í lagi aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Snærós segir ungliða vissulega hafa skiptar skoðanir í þessum málum en þeir geti sest niður og rætt hlutina á skynsamlegan hátt. „Okkur hefur tekist mjög vel að tala af bróðurleik um þau mál sem við erum ósammála um. Jafnvel þó móðurflokknum hafi ekki tekist það," segir Snærós. Hún bendir á að UVG hafi staðið fyrir fundaröð um Evrópusambandið þar sem ungliðar gátu kynnt sér allar hliðar og fengið upplýsingar frá hlutlausum aðilum. Hreyfingin fagnar tíu ára afmæli í ár og er því stefnt að stórum landsfundi með haustinu.

Pabbi saksóknara deilir á sýslumann

Sýslumaðurinn á Selfossi gagnrýnir að yfirmenn annarra lögregluliða hafi tjáð sig um barnaníðingsmálið í Vestmannaeyjum án þess að hafa aðgang að rannsókn málsins. Björgvin Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík, sem gagnrýndi Ólaf Helga harðlega í byrjun vikunnar, er faðir saksóknara málsins.

Göngugatan Laugavegurinn opnuð á morgun

Laugavegurinn verður opnaður sem göngugata á morgun, en stefnt er að því að verslunargatan verði lokuð fyrir bílaumferð frá Vatnsstíg að Skólavörðustíg í einn mánuð, eða fram til 1. ágúst næstkomandi. Unnið hefur verið að lokuninni frá því í janúar, en hugmyndin var kynnt fyrir rekstraraðilum miðborgarinnar um mánaðarmótin apríl/maí.

Rabarbaradagurinn er í dag

Dagur rabarbarans er haldinn hátíðlegur í dag. Af því tilefni verður örráðstefna um rabarbara og bökukeppni á Árbæjarsafni í Reykjavík. Dagur tileinkaður rabarbaranum er haldinn til að minna á mikilvægi þess að viðhalda ræktun rabarbarans og nýtingu hans sem hefur verið samofinn sögu Íslendinga og menningu í 130 ár. Dagskráin hefst klukkan þrjú að Lækjargötu 4 á Árbæjarsafni og er sem hér segir: Kl: 15:00 Erfðaauðlindir og gildi þeirra - Áslaug Helgadóttir Kl: 15:20 Saga rabarbarans - Vilmundur Hansen Kl: 15:40 Nýting rabarbarabans - Brynhildur Bergþórsdóttir Kl: 16:00 Bökukeppni - Allir hvattir til að koma með böku - besta rabarbarabakan valin

Vilja vörumerkingar fyrir blinda og sjónskerta

Evrópuþingið hefur samþykkt yfirlýsingu þar sem hvatt er til þess að Evrópusambandið beiti sér fyrir því að vörumerkingar verði gerðar aðgengilegar fyrir blinda og sjónskerta. Metfjöldi þingmanna á Evrópuþinginu skrifaði undir yfirlýsinguma. Yfirlýsingin, sem var að frumkvæði þingmannanna Konstantinos Poupakis og Ádám Kósa, með stuðningi þingmannanna Cecilia Wikström, Richard Howitt og Eva Lichtenberger, skorar á Evrópuráðið að hleypa af stokkunum breiðu samráðsferli um kosti þess að setja upp valfrjálst merkingakerfi með punktaletri og á öðrum aðgengilegum formum. Í kjölfar öflugrar herferðar af hálfu European Blind Union var skriflega yfirlýsing afgreidd af Evrópuþinginu á fundi í Brussel þann 23 júní síðast liðinn með metstuðningi 447 undirskrifta. Þetta er mesti stuðningur sem nokkur yfirlýsing hefur fengið á Evrópuþinginu og varpar skýru ljósi á það misrétti sem blindir og sjónskertir hafa þurft að búa við varðandi athafnir daglegs lífs, eins og t.d. við innkaup. Forseti European Blind Union, Colin Low lávarður, segir þetta mikilvægan sigur: „Ég er yfir mig ánægður með þennan mikla stuðning frá þingmönnum Evrópuþingsins. Án aðgengis að upplýsingum er ekkert sjálfstæði, ekkert val og ekkert öryggi. Á þessu verður að taka. Sá mikli stuðningur sem þetta mál hefur fengið setur það á dagskrá hjá Evrópusambandinu."

„Forsætisráðherra sagði ekki satt og rétt frá“

Ríkisendurskoðun telur að svör forsætisráðherra hafi gefið ófullnægjandi mynd af kostnaði ráðuneyta við aðkeypta ráðgjöf frá starfsmönnum Háskólans. Þingmaður sem óskaði eftir upplýsingunum segir alvarlegt að forsætisráðherra segi ekki satt frá.

Telur skrímsli búa í holum í Geirþjófsfirði

"Það voru einhver kvikindi þarna sem maður sá ekki almennilega, eitthvað sem var eldsnöggt að forða sér þegar komið var nálægt því,“ segir Árni Kópsson kafari sem fór síðastliðinn fimmtudag í skrímslarannsóknarleiðangur í Geirþjófsfjörð í Arnarfirði. Hann segist nú ætla að horfa gaumgæfilega á myndskeið sem hann tók í leiðangrinum til að ráða fram úr gátunni.

Hægt að komast hjá þjónustugjaldi

Landsbankinn segir fólk geta komist hjá 95 króna þjónustugjaldinu, sem bankinn rukkar fyrir að upplýsa viðskiptavini sína um stöðu í gegnum þjónustu.

Þingmaður krefur Isavia um svör vegna hvalaauglýsinga

Mörður Árnason alþingismaður, formaður umhverfisnefndar og fulltrúi í samgöngunefnd, sendi forstjóra Isaviu ofh., opinbera fyrirspurn í dag vegna umdeildra auglýsinga sem voru fjarlægðar í Leifsstöð á dögunum. Auglýsingarnar voru á vegum Alþjóða-dýraverndarsamtakanna IFAW á Íslandi, og voru gagnrýndar harðlega af hvalveiðimönnum sem sökuðu samtökin um smekklausar árásir.

Helmingurinn ætlar bara að ferðast innanlands í sumar

Um helmingur landsmanna ætlar eingöngu að ferðast innanlands í sumarfríinu Þriðjungur ætlar bæði að ferðast innan- og utanlands Þetta kemur fram í niðurstöðu könnunar MMR þar sem spurt var hvort Íslendingar ætla að ferðast innanlands eða utan í sumar. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðust 51,9% ætla eingöngu að ferðast innanlands í sumarfríinu, 28,5% ætla að ferðast bæði innan- og utanlands í sumarfríinu, 9,9% ætla eingöngu að ferðast utanlands og 9,7% sögðust ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu.

Umdeild forsíða Newsweek á fimmtugsafmæli Díönu

Nýjasta tölublað tímaritsins Newsweek hefur vakið hörð viðbrögð, en á forsíðunni er að finna tölvugerða mynd af Díönu prinsessu og Katrínu hertogaynju af Cambridge. Díana prinsessa hefði orðið fimmtug á morgun hefði hún lifað og veltir ritstjóri blaðsins, Tina Brown, fyrir sér hvernig líf prinsessunnnar væri árið 2011.

Umsjónarsamningur um Dyrhólaey samþykktur

Umhverfisráðuneytið hefur staðfest samning um umsjón og rekstur friðlandsins í Dyrhólaey sem gerður var af Umhverfisstofnun og sveitarfélaginu Mýrdalshreppi. Í samningnum er meðal annars kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir, landvörslu, menntun starfsmanna, móttöku ferðamanna og fræðslu.

Hyllir undir samninga - hafa fundað samfleytt síðan í gærmorgun

Samninganefndir Starfsgreinasambands Íslands og Flóafélaganna hafa setið í rúman sólarhring á samningafundi við Samninganefnd sambands íslenskra sveitarfélaga. Fundurinn hófst klukkan átta í gærmorgun og stendur hann enn. Signý Jóhannesdóttir, formaður samninganefndar Starfsgreinasambandsins, segist orðin langþreytt en býst við að skrifað verði undir samninga á næstu klukkstundum, þó með nokkrum semingi. Signý segir að það sem út af standi sé að Samband íslenskra sveitarfélaga standi fyrir fyrirheit sem gefin voru í yfirlýsingu sumarið 2009 um að haldið yrði áfram að jafna framlög í lífeyrissjóði SGS-félaganna og BSRB-félaganna. „Við byrjuðum árið 2001 að jafna þessi réttindi. Síðan hefur framlag í lífeyrissjóð starfsmanna verið aukið um hálft prósent. Við undirrituðum yfirlýsingu sumarið 2009 um að þetta yrði verkefni þessa kjarasamnings, að ganga frá hvernig þessi jöfnuður yrði en samninganefnd sveitarfélaganna telur sig ekki bundna af yfirlýsingunni og hefur að okkar mati svikið það sem þar kemur fram. Það eru gríðarleg vonbrigði en þrátt fyrir það gerum við ráð fyrir að skrifa undir kjarasamning á næstu klukkustundum,“ segir Signý. Spurð um ástæðu þess að samningamenn sveitarfélaganna telja sig ekki bundna af þessu segir hún að þeir vísi í erfitt efnahagsástand í þjóðfélaginu. „Mér þykir slæmt að skrifa undir kjarasamning en upplifa að maður hafi verið svikinn í tryggðum,“ segir Signý.

Stöðuvatn á Sprengisandsvegi

Mikið vatn er nú á Sprengisandsvegi í Nýjadal og tálmar umferð. Gunnar Njálsson, landvörður Vatnajökulsþjóðgarðs segir í samtali við Fréttablaðið að vatnið hafi myndast þar sem stór skafl stíflar allt frárennsli. Hann segir vatnið afar víðfeðmt, allt að 50 metra á breidd, 200 til 300 metra á lengd og allt að tveggja metra djúpt.

Spuni Finns ekki falur

"Þetta var mögnuð stund,“ segir Finnur Ingólfsson, þegar hann lýsir því er tölur kynbótadómara voru lesnar upp á Landsmótinu á Vindheimamelum og til varð nýr heimsmeistari, Spuni frá Vesturkoti, fimm vetra, en hann fékk 8,87 í aðaleinkunn, hæstu einkunn í heimi sem stóðhestur hefur fengið.

Forsætisráðherra segir kröfu Bjarna vera pólitískan leik

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill láta kalla Alþingi saman. Ástæðan er hugmyndir um bráðabirgðalög sem tryggja eiga framhald á greiðslu atvinnuleysisbóta til þeirra sem eru í hlutastarfi. Bjarni segir bráðabirgðalög vera inngrip ríkisstjórnarinnar í löggjafarvaldið.

Hitabeltisstormurinn Arlene skellur á Mexíkó

Fyrsti hitabeltisstormur fellibyljatímabilsins á Atlantshafi er um það bil að skella á vesturströnd Mexíkó. Hafa yfirvöld þarlendis varað íbúa á þessu svæði við miklu úrhelli, flóðum og mögulegri hættu á leirskriðum.

Mikið úrhelli hrjáir Dani

Mikið úrhelli víða í Danmörku í nótt hefur valdið því að veðurstofa landsins hefur varað við flóðum á vegum einkum á Jótlandi.

Strandveiðibátar streyma á miðin

Strandveiðibátar hafa streymt á miðin alveg frá miðnætti og um klukkan sex í morogun voru yfir 600 skip og bátar á sjó við landið og fjölgaði enn.

Sjá næstu 50 fréttir