Innlent

Stöðuvatn á Sprengisandsvegi

Gunnar sést hér úti í vatninu, sem nær allt að tveggja metra dýpt. Vonast er til þess að hægt verði að opna veginn í næstu viku.
Gunnar sést hér úti í vatninu, sem nær allt að tveggja metra dýpt. Vonast er til þess að hægt verði að opna veginn í næstu viku. Mynd/Guðmundur Árnason
Mikið vatn er nú á Sprengisandsvegi í Nýjadal og tálmar umferð. Gunnar Njálsson, landvörður Vatnajökulsþjóðgarðs segir í samtali við Fréttablaðið að vatnið hafi myndast þar sem stór skafl stíflar allt frárennsli. Hann segir vatnið afar víðfeðmt, allt að 50 metra á breidd, 200 til 300 metra á lengd og allt að tveggja metra djúpt.

Gunnar segir ástandið afar sérstakt. „Þetta er allt öðruvísi en áður og hlutirnir eru að gerast mikið seinna á árinu.“

Veghefill mun fara upp að vatninu í dag og freista þess að hleypa úr því. Gunnar býst við að Sprengisandsvegur verði opnaður fyrir umferð í næstu viku.

Enn er ófærð á hálendinu og Gunnar mælir með því að ferðafólk leiti upplýsinga á vef Vegagerðar áður en lagt er í hann. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×