Lífið

Á annan veg til Gautaborgar

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson er ánægður með að mynd sín Á annan veg sé ein af átta myndum sem sýndar verða á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg.
Hafsteinn Gunnar Sigurðsson er ánægður með að mynd sín Á annan veg sé ein af átta myndum sem sýndar verða á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg.
„Þetta er mjög gaman og flott að vera valinn inn á þessa hátíð,“ segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri myndarinnar Á annan veg sem var valin inn á hina eftirsóttu kvikmyndahátíð í Gautaborg fyrir helgi.

Hátíðin er sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum og verður Á annan veg fulltrúi Íslands en átta nýjar norrænar myndir keppa um hin eftirsóttu Drekaverðlaun. „Við höfum verið á miklu flakki með myndina síðan í haust en þetta verður frumsýning á henni á Norðurlöndunum og vonandi opnast einhverjar dyr þar í kjölfarið,“ segir Hafsteinn, sem ætlar að fylgja myndinni til Svíþjóðar ásamt öðrum framleiðanda myndarinnar.

Kvikmyndahátíðin í Gautaborg fer fram dagana 27. janúar til 6. febrúar en Á annan veg verður sýnd þann 28. janúar. Samhliða hátíðinni verður sérstök kvikmyndahátíð barnanna og eiga Íslendingar einnig fulltrúa þar en teiknimyndin Hetjur Valhallar: Þór í leikstjórn Óskars Jónassonar er þar á dagskrá.

Til mikils er að vinna á hátíðinni en Drekaverðlaunin eru um ein milljón sænskra króna. „Það væri nú ekki leiðinlegt að vinna verðlaunin en helst vill maður náttúrulega reyna að koma myndinni í sýningu á Norðurlöndunum,“ segir Hafsteinn, sem er byrjaður að undirbúa nýja mynd. „Þetta er verkefni sem ég er að undirbúa ásamt Huldari Breiðfjörð og ég vonast til að geta farið í tökur strax í vor. Samt ætla ég að halda áfram að kynna Á annan veg þetta árið.“ -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.