Innlent

Konur styðji útlendar starfssystur

Formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna óttast að konur af erlendum uppruna taki ekki virkan þátt í Kvennafrídeginum.
Formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna óttast að konur af erlendum uppruna taki ekki virkan þátt í Kvennafrídeginum.

„Ég bið íslenskar konur um að styðja erlendar samstarfskonur sínar og hvetja þær á Kvennafrídaginn,“ segir Sabine Leskopf, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna.

Kvennafrídagurinn er í dag. Þá hyggjast konur ganga út af vinnustöðum sínum klukkan 14.25 til að minna á sameiginleg baráttumál sín. Sabine Leskopf óttast að konur af erlendum uppruna taki ekki virkan þátt í viðburðinum. Á kvennafrídeginum 2005 hafi þátttaka erlendra kvenna verið mjög lítil.

„Ástæðan var örugglega að hluta til sú að konurnar vissu ekki af deginum. Tengsl þeirra við kvennahreyfinguna voru lítil og upplýsingar voru ekki þýddar. Síðan held ég að þessar konur hafi einfaldlega verið hræddar um að missa vinnunna á meðan íslenskar konur hins vegar bara gengu út; það kom ekkert annað til greina,“ segir Sabine.

Þá kveður Sabine jafnvel hafa verið dæmi um það árið 2005 að atvinnurekendur hafi boðið erlendum konum aukagreiðslur fyrir að vinna á meðan íslenskar starfssystur þeirra gengu út. Hún hafi þó ekki heyrt af slíku nú.

Sabine ráðleggur erlendum konum að leita ráða hjá íslenskum konum á vinnustöðunum. „Íslenskar konur með sína sögu og reynslu geta verið mikill styrkur fyrir erlendar samstarfskonur sínar. Þetta er mál sem snertir okkur allar og erlendar konur verða fyrir tvöföldu misrétti, ekki síst hvað varðar launamun.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×