Lífið

Bragi ber ábyrgð á nafninu langastöng

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Pælingin á bak við nafnið er að stöngin sé framlenging á handleggnum.
Pælingin á bak við nafnið er að stöngin sé framlenging á handleggnum. Vísir/Valli
„Já ég er sekur, nafnið langastöng er frá mér komið,“ segir Bragi Valdimar Skúlason, Baggalútur og texta- og hugmyndasmiður hjá auglýsingastofunni Brandenburg.

Hann er ábyrgur fyrir nafninu langastöng á einu vinsælasta fyrirbæri síðasta árs, selfie-stönginni. Orðið langastöng er þó ekki nýyrði, heldur er það gamalt orð yfir fingurinn löngutöng. „Það er nú einmitt pælingin á bak við þetta nafn, að þetta sé framlenging á handleggnum eða hendinni. Orðið er ekki bara sniðugt, ég er líka svona sniðugur,“ segir Bragi léttur.

Langastöng er þó ekki eina orðið sem notað hefur verið yfir þetta fyrirbæri en orð eins og montprik, kjánaprik og sjálfustöng hafa öll verið notuð. „Það var víst mikil og fjörug umræða um þetta á Twitter um daginn hvort nota ætti montprik eða löngustöng,“ bætir Bragi við. „Svo er bara spurning hvort og hvaða orð nær að festast við þetta.“

Guðmundur A. Guðmundsson, markaðsstjóri hjá NOVA, líkir löngustangaræðinu við Sodastream- og fótanuddtækisæðin sem gripu landann fyrir þó nokkrum árum.

„Það varð eiginlega allt tryllt. Við byrjuðum að selja þetta vel fyrir jólin. Þetta hefur verið Sodastream eða fótanuddtæki ársins. Það er eiginlega sama hvar á landinu verslunin var staðsett, þetta flaug út,“ segir Guðmundur.

Stöngin var einstaklega vinsæl gjöf enda seldist hún margsinnis upp fyrir jólin. „Þetta var eiginlega alltaf uppselt, enda vinsælt í pakkann og sérstaklega sem möndlugjöf,“ segir hann.

Langastöngnordicphotos/getty
Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir, almannatengill hjá Vodafone, hefur svipaða sögu að segja. „Við tókum stangirnar í sölu í nóvember, en þær flugu út eftir því sem nær dró jólum og voru aðeins örfá stykki eftir þegar hátíðirnar gengu í garð. Hafa þær eflaust verið dregnar fram í ófáum jólaboðunum, enda tilvaldar til að ná myndum af heilu stórfjölskyldunum í einu,“ segir Gunnhildur. Hún reiknar með að magnið sem hafi farið út fyrir jól hafi hlaupið á nokkrum hundruðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.