Sex marka leikur á Emirates

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/getty
Arsenal skoraði þrjú mörk á fimm mínútum í ótrúlegum leik gegn Liverpool á Emirates í kvöld.

Gestirnir úr Liverpool voru allt í öllu í fyrri hálfleik og hefðu hæfilega getað farið með tveggja, þriggja marka forystu inn í leikhléið. Þeir náðu þó aðeins að skora eitt mark í fyrri hálfleik þegar Philippe Coutinho skallaði boltann í netið af stuttu færi á 26. mínútu.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og þeim fyrri lauk, ekkert að gerast hjá heimamönnum og þegar Mohamed Salah kom Liverpool í 2-0 þá virtist leikurinn úti.

Sílemaðurinn Alexis Sanchez ákvað hins vegar að nýta sér varnarmistök Liverpool og skoraði fyrir Arsenal aðeins mínútu eftir að Salah skoraði.

Granit Xhaka og Mesut Özil bættu svo við tveimur mörkum á næstu fjórum mínútum og Arsenal allt í einu komið yfir í leiknum.

Roberto Firmino jafnaði metin aftur fyrir Liverpool á 71. mínútu, en þrátt fyrir þó nokkur marktækifæri beggja megin urðu mörkin ekki fleiri, 3-3 jafntefli niðurstaðan.

Varnarmistök, og þá sérstaklega mistök markmanna, voru áberandi í þessum leik, en báðir markmennirnir gerðu sig seka um að kosta lið sitt eitt mark.

Staða liðanna breytist því ekkert í deildinni, þau sitja í 4. og 5. sæti og aðeins eitt stig aðskilur þau.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira