Viðskipti innlent

Gjaldþrot frekar en „óhjákvæmileg skuldasöfnun“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri Capacent á Íslandi.
Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri Capacent á Íslandi.

Stjórn ráðgjafafyrirtækisins Capacent óskaði í dag eftir gjaldþrotaskiptum „frekar en að freista þess að halda áfram rekstri með óhjákvæmilegri skuldasöfnun,“ eins og segir í tilkynningu frá Halldóri Þorkelssyni, framkvæmdastjóra Capacent, sem send var fjölmiðlum á sjötta tímanum í dag.

Vísir greindi frá því í gærkvöldi að Capacent væri gjaldþrota. Þá náðist ekki í Halldór þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og hefur fréttastofa heldur ekki náð tali af honum í dag.

Í tilkynningunni sem hann sendi segir að árið hafi farið vel af stað hjá félaginu en að þær aðstæður sem mynduðust í atvinnulífinu vegna kórónuveirufaraldursins hafi fljótt farið að segja til sín í rekstrinum þar sem tekjur féllu verulega.

„Eftir þrotlausa vinnu síðustu vikur við að bjarga félaginu þar sem starfsmenn lögðust á eitt er staðan því miður sú að rekstrargrundvöllur félagsins er erfiður og erfitt að segja til um hversu hratt verulegur bati verður þar á. Stjórn félagsins hefur af þessum sökum í dag óskað eftir gjaldþrotaskiptum frekar en að freista þess að halda áfram rekstri með óhjákvæmilegri skuldasöfnun,“ segir í tilkynningu Capacent.

Um fimmtíu manns störfuðu hjá fyrirtækinu sem sinnti meðal annars ráðgjöf varðandi ráðningar og stefnumótun hjá íslenskum fyrirtækjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×