Menning

Þegar sjónvarpið tekur völdin

Að meðaltali eyðir fólk í hinum iðnvædda heimi þremur tímum á dag í að horfa á sjónvarpið. Ætla mætti að það væri vegna þess að fólk teldi tíma sínum best varið á þennan hátt. Sú er þó ekki raunin því margir telja sjónvarpið tímaþjóf og vilja gjarnan horfa minna en þeir gera og nota tímann sinn í þarfari hluti. Við virðumst dragast að sjónvarpinu hvort sem við ætlum okkur að horfa eða ekki og eigum oft erfitt með að slíta okkur frá tækinu. Hver kannast ekki við að hafa átt í samræðum við fólk þar sem sjónvarp er í gangi en ekki staðist það að kíkja á skjáinn öðru hvoru þó svo samræðurnar séu mjög áhugaverðar. Vissulega er sjónvarpið öflugur miðill sem færir fréttir, fræðsluefni og afþreyingu og veitir fólki félagsskap og skemmtun en allt er gott í hófi. Of mikið sjónvarpsgláp getur orðið að fíkn og þegar fólk er farið að láta sjónvarpsdagskrána vera aðaltímaskipuleggjanda sinn þá ætti viðvörunarbjöllum að hringja. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að fólk sem horfir of mikið á sjónvarp á það til að verða þreyttara, feitara og leiðara en annað fólk, þó ekki sé ólíklegt að fólk með slík vandamál sækist í sjónvarp. Góð leið til að vita hvort tímanum sé vel varið framan við sjónvarpið er að átta sig á því hvenær áhorfandinn er að stýra þeim tíma sem fer í glápið og hvenær sjónvarpstækið ræður ferðinni. Ef þér finnst þú horfa of mikið á sjónvarp og vilt draga úr áhorfinu þá eru hér nokkur góð ráð sem vert er að fylgja: * Í stað þess að setjast niður og tékka bara á hvað er í sjónvarpinu með því hoppa á milli rása skaltu nota sjónvarpsdagskrána og velja hvað þú ætlar að horfa á. * Raðaðu þeim stöðvum saman í röð í minnið í sjónvarpstækinu sem þú vilt helst horfa á. Með því ertu að forðast að renna í gegnum þær stöðvar sem þú hefur minni áhuga á og festast í einhverju efni þar. * Ágætt er að taka upp efni sem þú vilt horfa á og nota tímann í annað á meðan upptakan rúllar. Flestir gefa sér nefnilega aldrei tíma til að horfa á það sem þeir taka upp. * Ekki hafa sjónvarpið inni í svefnherbergi þar sem það getur haldið fyrir þér vöku fram eftir nóttu og auk þess er mun skemmtilegra að nota svefnherbergið til annars en sjónvarpsgláps. * Ef þú byrjar að horfa á bíómynd sem reynist leiðinleg þá skaltu slökkva en ekki hanga yfir henni til að sjá hvernig hún endar. Endirinn er eflaust jafn óspennandi og myndin sjálf. * Ef börnin hanga of mikið yfir sjónvarpinu þá skaltu setja reglur um hversu lengi má horfa í hvert sinn og láta klukku hringja þegar tímanum lýkur. Börnin hlýða oft frekar bjöllunni en rödd þinni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×