Að hengja handlangara fyrir smið 8. nóvember 2004 00:01 Þórólfur Árnason fékk að ganga svipugöngin í sjónvarpinu á föstudagskvöld - ekki einu sinni heldur tvisvar. Áður gekk hann þau í fyrra þegar fyrst komst í hámæli að hann hefði vitað af / tekið þátt í ólöglegu samráði olíufélaganna. Þá baðst hann afsökunar á sínum þætti í samsærinu mikla gegn almenningi. Ekki var auðvelt að henda reiður á skýringum Þórólfs að þessu sinni út af frammígripum, fussi og hnussi og þrálátum skilaboðum um vanþóknun þáttastjórnendanna á málflutningi hans en daginn áður hafði Davíð Oddsson látið þau boð út ganga að sér fyndist Þórólfi hlíft í fjölmiðlum. Það átti greinilega ekki að vakna grunsemdarvottur um slíkt - en almennt fer samt betur á því að áhorfendum sé leyft að draga sjálfum ályktanir af málflutningi fólks. Skýringar Þórólfs eru ekki allar sannfærandi: til dæmis á minnispunktum frá fundi um þriggja króna hækkun bensínverðs sem honum gengur erfiðlega að koma heim og saman við staðhæfingu sína um að hann hafi aldrei komið að samráði um verð en býður okkur þess í stað upp á nokkuð þvælið tal um óformlegt spjall í byrjun fundar um almennar hræringar á markaði... Og hvað? Var maðurinn ekki markaðsstjóri hjá olíufélagi? Átti hann að segja upp? Gera uppreisn? Eða gera það sem hann gerði: taka næsta djobbi sem byðist... Talað hefur verið um að hengdur sé bakari fyrir smið - eigum við ekki fremur að segja að hér sé hengdur fyrrverandi handlangari fyrir smið. Þórólfur var vissulega staddur í samsærinu gegn almenningi miðju, en það virkar þrátt fyrir allt ankannalega á mann að hann skuli gerður að blóraböggli í nákvæmlega þessu máli. Ásamt ýmsu öðru fólki varð hann kringum aldamótin að táknmynd fyrir nýja tíma í íslensku viðskiptalífi þegar hann starfaði hjá Tali og hóf kraftmikla og glaðlega samkeppni við stóra Ríkisflokks-fyrirtækið, Landssímann. Þetta fólk færði okkur heim sanninn um að hægt væri að stunda viðskipti á Íslandi án þess að vera í Kolkrabbanum eða SÍS-uppvakningnum. Í rauninni var frjálsri samkeppni þröngvað upp á Íslendinga við inngönguna í EES. Fram að því aðhylltist valdastéttin á Íslandi þá óorðuðu kennisetningu að samkeppni í viðskiptum væri ekki bara óæskileg hér á landi heldur líka óhugsandi í svo smáu samfélagi. Forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins voru lengi að átta sig á þeim breytingum sem frjálsræði í viðskiptum hafði, enda þekktu þeir sennilega lítt til kapítalisma, og uppgötvuðu ekki fyrr en um seinan að hann hafði í för með sér að alls konar skillítið fólk gæti komist í álnir án þess að hafa sérleyfi frá Flokknum. Það var m.ö.o. ekki fyrr en með aðildinni að EES sem samráð olíufélaganna varð ólöglegt. Og rétt eins og forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins töldu að hægt væri að taka upp alls kyns lög án þess að það væri "svo bókstaflega meint", þá virtust menn úr viðskiptaarmi Flokksins - og SÍS-uppvakningnum - telja að þeir gætu haldið uppteknum hætti um samráð hvað sem liði einhverjum paragröffum í Brussel. Lengi vel gekk það. En svo kom að því að ekki var lengur hægt að þráast við að leyfa Samkeppnisstofnun að sinna eftirlitshlutverki sínu. Og því fór sem fór. Hvern á að hengja? Hver er Smiðurinn í þessu máli? Kristinn Björnsson segir fólk - en á móti má spyrja: hverju erum við bættari með því að smána hann opinberlega, eða hina, Einar Benediktsson og Geir Magnússon? Væri ekki nær og mikilvægara fyrir fólkið í landinu að láta rannsaka okrið hjá tryggingarfélögunum sem okkur er gert að gjalda tíund? Þetta á ekki að snúast um einstaklinga heldur að brjóta niður vont kerfi. Forstjórarnir eru partur af því kerfi og draga dám af því. Sjálfsagt er að svipta þá vegtyllum og háum stöðum en það á líka að gefa þeim kost á endurhæfingu. Mætti ekki senda þá á skólabekk í Háskólann í Reykjavík? Þessu má líkja við það þegar múrinn féll og alls konar fólk sem hafði verið hluti af valdakerfi austur-þýska Kommúnistaflokksins hóf nýtt líf, frjálst undan þrúgandi oki valda sinna. Menn hér voru misjafnlega fljótir að koma sér út úr þessu kerfi - Þórólfur var með þeim fyrstu. Það er enginn sérstakur smiður, bara hús sem er löngu risið, stórt og ljótt. Við eigum að jafna það við jörðu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Þórólfur Árnason fékk að ganga svipugöngin í sjónvarpinu á föstudagskvöld - ekki einu sinni heldur tvisvar. Áður gekk hann þau í fyrra þegar fyrst komst í hámæli að hann hefði vitað af / tekið þátt í ólöglegu samráði olíufélaganna. Þá baðst hann afsökunar á sínum þætti í samsærinu mikla gegn almenningi. Ekki var auðvelt að henda reiður á skýringum Þórólfs að þessu sinni út af frammígripum, fussi og hnussi og þrálátum skilaboðum um vanþóknun þáttastjórnendanna á málflutningi hans en daginn áður hafði Davíð Oddsson látið þau boð út ganga að sér fyndist Þórólfi hlíft í fjölmiðlum. Það átti greinilega ekki að vakna grunsemdarvottur um slíkt - en almennt fer samt betur á því að áhorfendum sé leyft að draga sjálfum ályktanir af málflutningi fólks. Skýringar Þórólfs eru ekki allar sannfærandi: til dæmis á minnispunktum frá fundi um þriggja króna hækkun bensínverðs sem honum gengur erfiðlega að koma heim og saman við staðhæfingu sína um að hann hafi aldrei komið að samráði um verð en býður okkur þess í stað upp á nokkuð þvælið tal um óformlegt spjall í byrjun fundar um almennar hræringar á markaði... Og hvað? Var maðurinn ekki markaðsstjóri hjá olíufélagi? Átti hann að segja upp? Gera uppreisn? Eða gera það sem hann gerði: taka næsta djobbi sem byðist... Talað hefur verið um að hengdur sé bakari fyrir smið - eigum við ekki fremur að segja að hér sé hengdur fyrrverandi handlangari fyrir smið. Þórólfur var vissulega staddur í samsærinu gegn almenningi miðju, en það virkar þrátt fyrir allt ankannalega á mann að hann skuli gerður að blóraböggli í nákvæmlega þessu máli. Ásamt ýmsu öðru fólki varð hann kringum aldamótin að táknmynd fyrir nýja tíma í íslensku viðskiptalífi þegar hann starfaði hjá Tali og hóf kraftmikla og glaðlega samkeppni við stóra Ríkisflokks-fyrirtækið, Landssímann. Þetta fólk færði okkur heim sanninn um að hægt væri að stunda viðskipti á Íslandi án þess að vera í Kolkrabbanum eða SÍS-uppvakningnum. Í rauninni var frjálsri samkeppni þröngvað upp á Íslendinga við inngönguna í EES. Fram að því aðhylltist valdastéttin á Íslandi þá óorðuðu kennisetningu að samkeppni í viðskiptum væri ekki bara óæskileg hér á landi heldur líka óhugsandi í svo smáu samfélagi. Forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins voru lengi að átta sig á þeim breytingum sem frjálsræði í viðskiptum hafði, enda þekktu þeir sennilega lítt til kapítalisma, og uppgötvuðu ekki fyrr en um seinan að hann hafði í för með sér að alls konar skillítið fólk gæti komist í álnir án þess að hafa sérleyfi frá Flokknum. Það var m.ö.o. ekki fyrr en með aðildinni að EES sem samráð olíufélaganna varð ólöglegt. Og rétt eins og forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins töldu að hægt væri að taka upp alls kyns lög án þess að það væri "svo bókstaflega meint", þá virtust menn úr viðskiptaarmi Flokksins - og SÍS-uppvakningnum - telja að þeir gætu haldið uppteknum hætti um samráð hvað sem liði einhverjum paragröffum í Brussel. Lengi vel gekk það. En svo kom að því að ekki var lengur hægt að þráast við að leyfa Samkeppnisstofnun að sinna eftirlitshlutverki sínu. Og því fór sem fór. Hvern á að hengja? Hver er Smiðurinn í þessu máli? Kristinn Björnsson segir fólk - en á móti má spyrja: hverju erum við bættari með því að smána hann opinberlega, eða hina, Einar Benediktsson og Geir Magnússon? Væri ekki nær og mikilvægara fyrir fólkið í landinu að láta rannsaka okrið hjá tryggingarfélögunum sem okkur er gert að gjalda tíund? Þetta á ekki að snúast um einstaklinga heldur að brjóta niður vont kerfi. Forstjórarnir eru partur af því kerfi og draga dám af því. Sjálfsagt er að svipta þá vegtyllum og háum stöðum en það á líka að gefa þeim kost á endurhæfingu. Mætti ekki senda þá á skólabekk í Háskólann í Reykjavík? Þessu má líkja við það þegar múrinn féll og alls konar fólk sem hafði verið hluti af valdakerfi austur-þýska Kommúnistaflokksins hóf nýtt líf, frjálst undan þrúgandi oki valda sinna. Menn hér voru misjafnlega fljótir að koma sér út úr þessu kerfi - Þórólfur var með þeim fyrstu. Það er enginn sérstakur smiður, bara hús sem er löngu risið, stórt og ljótt. Við eigum að jafna það við jörðu.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun