Viðskipti innlent

Bréf í deCode hækka

Verð á hlutabréfum í deCode hefur hækkað umtalsvert á bandaríska Nasdaq markaðinum að undanförnu. Fyrir opnun markaðar í gær stóðu bréfin í 7,86 dölum á hlut. Bréfin hafa hækkað um 22 prósent á einum mánuði. DeCode hefur nýverið kynnt nokkrar uppgötvanir meðal annars um arfgengi áhættu vegna lungnakrabbameins. Að sögn Eiríks Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa deCode á Íslandi, hafa rannsóknir fyrirtækisins leitt í ljós að einstaklingar af vissum ættum séu líklegri en aðrir til að fá lungnakrabbamein. Reykingar eru yfirgnæfandi áhættuþáttur hvað lungnakrabbamein varðar en misjafnt er hversu líklegt sé að reykingamenn veikist af sjúkdóminum og bendir rannsóknin til þess að arfgengir þættir ráði þar nokkru. Rannsókn deCode var unnin í samvinnu við vísindamenn hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi og Hjartavernd. Í haust höfðuðu nokkrar lögmannsstofur í Bandaríkjunum mál á hendur deCode og sökuðu fyrirtækið um ófullnægjandi upplýsingagjöf. Að sögn Eiríks er ekki að vænta frétta af málaferlum fyrr en eftir nokkra mánuði og óvíst sé að af þeim verði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×