Sport

NBA-samfélagið í sárum

Forráðamenn NBA-deildarinnar, leikmenn, aðstendur liða og síðast en ekki síst áhangendur deildarinnar eru enn að jafna sig eftir slagsmálin sem áttu sér stað í leik Detroit Pistons og Indiana Pacers í nótt. Slagsmálin voru sérstök að því leyti að nokkrir leikmenn Pacers, með Ron Artest í fararbroddi, tóku sig til og réðust á áhorfendur. "Þetta var svívirðilegt atvik", sagði NBA-goðsögnin Bill Walton í viðtali við sjónvarpsstöðina ESPN. "Það er enginn afsökun til fyrir leikmenn sem fara út fyrir völlinn og upp í stúku. Forréttindin og sæmdin sem fylgir því að vera NBA-leikmaður bannar þér að fara yfir línuna [sem skilur leikvöllinn og áhorfendastæðin að]. Þetta var hræðileg uppákoma og það er ljóst að bæði lið munu hljóta þungar refsingar sem munu hafa mikil áhrif á tímabil þeirra", bætti Walton við og er ekki ofsögum sagt þar sem konur og börnum sáust horfa grátandi á. Atburðarrásin hræðilega átti sér stað er Ron Artest braut á Ben Wallace þegar 45 sekúndur voru eftir af leiknum. Wallace brást ókvæða við og réðist að Artest. Hófust þá stympingar á milli leikmanna á vellinum. Svo virtist sem tekist hefði að róa leikmenn þegar áhorfandi Detroit glasi á Artest sem lá á ritaraborðinu. Artest gerði sér þá lítið fyrir og hljóp upp í áhorfendastæðin og réðist að áhorfandanum og sló hann. Þá varð allt endanlega vitlaust, Stephen Jackson skarst í leikinn og fleiri stuðningsmenn Detroit Pistons. Þegar leikmenn Indiana voru að ganga af velli gekk áhorfandi ögrandi að Ron Artest sem svaraði með höggum. Jermaine O´Neal, félagi Artest í Indiana, gerði gott betur og gaf áhorfandum þungt hnefahögg. Þegar Artest, O´Neal og Jackson gengu loksins inn í búningsklefa hentu áhorfendur í þá ís, bjór og poppkorni. Forráðamenn NBA gáfu frá sér yfirlýsingu í nótt þar sem þeir sögðust ekki ætla að segja neitt um atvikið fyrr en þeir hafi farið betur yfir það. Þeir bönnuðu leikmönnum frá báðum liðum að tala við fjölmiðla. Lögreglan í Auburn Hills, Detroit, eru enn að rannsaka The Palace, heimavöll Pistons, enda mjög líklegt að leikmenn Indiana verði kærðir fyrir líkamsárás. Detroit Pistons eiga yfir höfði sér leikbönn og sektir vegna framgöngu Ben Wallace og nokkurra annarra leikmanna, m.a. Antonio McDyess. Einnig eiga Pistons yfir höfði sér heimaleikjabann vegna framgöngu áhorfanda. Afleiðingarnar fyrir lið Indiana Pacers verða þó eflaust öllu alvarlegri þar sem þeir Ron Artest, Jermaine O´Neal og Stephen Jackson lögðu beinlínis hendur á áhorfendur. Allt eins er líklegt að leikmennirnir verði reknir úr NBA-deildinni um aldur og ævi og eiga þeir einnig yfir höfði sér kærur vegna líkamsárása. Bera þurfti einn áhorfandann, Charles Hadad, út af á börum eftir að O´Neal hafði steinrotað hann með þungu höggi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×