Fótbolti

Lehmann elti kærastann til Ítalíu: „Draumur að geta verið hjá sama fé­lagi“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nýjasti leikmaður Juventus.
Nýjasti leikmaður Juventus. Valerio Pennicino/Getty Images

Alisha Lehmann er gengin í raðir Juventus frá Aston Villa. Eltir hún kærasta sinn Douglas Luiz sem samdi við Juventus á dögunum. Þá hefur Chelsea fengið framherjann Sandy Baltimore frá París Saint-Germain.

Á meðan stærstu lið Evrópu karla megin hafa haldið sig hæg á leikmannamarkaðnum til þessa þar sem bæði Evrópumótið og Suður-Ameríkukeppnin eru í fullum gangi þá er nóg af félagaskiptum kvenna megin.

Juventus hefur staðfest komu Alishu Lehmann, landsliðskonu frá Sviss, en hún eltir kærasta sinn Luiz til Ítalíu. Hin 25 ára gamla Lehmann hefur spilað 53 A-landsleiki fyrir Sviss og spilað á Englandi síðan 2018. Skrifar hún undir þriggja ára samning á Ítalíu.

„Ég naut hverrar mínútu af árunum mínum þremur hjá félaginu,“ sagði Lehmann um tíma sinn hjá Aston Villa.

„Ég gæti ekki verið glaðari. Juventus á ríka sögu, svo ríka sögu raunar að ég var stressuð þegar ég mætti í læknisskoðunina því það voru svo mikið af stuðningsfólki mætt. En fyrir Douglas og mig þá er draumurinn að geta verið hjá sama félagi.“

Chelsea heldur áfram að láta til sín taka á markaðnum. Nú hefur það staðfest komu hinnar 24 ára gömlu Sandy Baltimore frá PSG. Sú skrifar undir fjögurra ára samning, til ársins 2028.

Baltimore er örvfætt og getur spilað í fremstu línu, á báðum vængjum eða í holunni á bakvið framherjann. Hún á að baki yfir 200 leiki fyrir PSG og gefur sóknarlínu Chelsea meira jafnvægi.

„Ég er mjög ánægð með að vera gengin í raðir Chelsea, mér líður frábærlega. Ég hef alltaf viljað spila fyrir félagið og nú verður það að veruleika,“ sagði Baltimore við undirskriftina.


Tengdar fréttir

Hollenska marka­vélin semur við Manchester City

Hollenski framherjinn Vivianne Miedema er orðin leikmaður Manchester City og skrifar hún undir þriggja ára samning við félagið. Tíðindi sem staðfesta að Miedema verður áfram í ensku ofurdeildinni en hún var áður á mála hjá Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×