Fastir pennar

Um örugg sæti - og vonlaus

Man nokkur í dag með hvaða hætti Vilhjálmur Egilsson hvarf út af þingi í fyrra? Ekki féll hann í kosningum. Nei, hann beið lægri hlut í prófkjöri fyrir Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra. Villi taldi ekki allt hafa verið með felldu um framkvæmd prófkjörsins. Stuðningsmenn Sturlu hefðu verið á ferðinni út um hvippinn og hvappinn með kjörkassana, á fjölmenna vinnustaði og að sjúkrabeði fólks. Mönnum hefði verið bætt inn á kjörskrár á staðnum með því að taka þá inn í Flokkinn og láta þá síðan kjósa. Afleiðingin varð sú að Villi lenti í fjórða sæti sem hann taldi "vonlaust sæti". Hefði Sturla hins vegar lent í þessu sæti hefðu kjósendur getað lagt ráðherraferil hans í dóm með tilheyrandi fylgishruni Flokksins. Með þessari "smávægilegu hagræðingu" fylgismanna hans á kosningareglum komst Sturla í fyrsta sæti á lista flokksins, þrælöruggt sæti þar sem engin hætta var á að kjósendur næðu til hans til umbunar eða refsingar fyrir verk hans á liðnu kjörtímabili. Villi kærði málið fyrir formanni sínum. En í ljós kom að engar óyggjandi reglur giltu um svona tilvik í prófkjörum. Hver sem úrskurður formannsins hefði verið er hætt við að ákvörðunin hefði miður heppileg áhrif á fylgi Flokksins. Formaðurinn kaus því að leiða hjá sér efnisatriði málsins og kvað upp þann Salómonsdóm að Villi skyldi fá embætti á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington. Að hæfilegum tíma liðnum losnaði embætti ráðuneytisstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu og Villi var fluttur þangað. Hvað halda menn að hefði gerst, hefði kosningasvindlið átt sér stað í almennum kosningum til alþingis? Málið hefði verið útkljáð af almennum dómstóli samkvæmt almennt viðurkenndum réttarfarsreglum og lög hefðu einfaldlega skorið úr um réttmæti málstaðar hvors aðila um sig. Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar kom upp ágreiningur meðal framsóknarmanna í Reykjavík um framkvæmd prófkjörs um skipan fulltrúa flokksins á R-listann. Varaborgarfulltrúi þeirra framsóknarmanna, Óskar Bergsson, taldi að stuðningsmenn sínir og ættingjar hefðu kerfisbundið verið strikaðir út af kjörskrá gildra flokksmanna. Enginn þar til bær aðili reyndist vera innan flokksins til að skera úr þessum ágreiningi og Óskar Bergsson hætti við þátttöku í prófkjörinu. Það er raunar almælt að um áratugi hafi það verið svo, að sá maður/klíka, sem haft hafi forsjá með samsetningu kjörskrár flokksins hafi í raun valið fulltrúa flokksins á alþingi og í borgarstjórn, sett þá af eða gefið þeim pólitískt framhaldslíf. Upphafleg kjördæmaskipan landsmanna byggði á landfræðilega afmörkuðum einmenningskjördæmum, þar sem kjósendur áttu auðvelt með að refsa fulltrúum sínum eða umbuna eftir frammistöðu. Þessi möguleiki hvarf að miklu leyti með stækkun kjördæmanna 1959 og síðar. Enn hugsa menn þó að verulegu leyti í smáum landfræðilegum einingum. Margsinnis hafa stóru flokkarnir klofnað eftir gamalli kjördæmaskiptingu, þegar gömlu sýslurnar hafa ekki talið sinn mann hafa náð nógu ofarlega á lista til að vera í "öruggu sæti". Fullyrt hefur verið að Siglfirðingar til dæmis hafi upp til hópa tekið þátt í prófkjörum allra flokka og að lokum kosið þann flokk sem skipaði þeirra manni nógu ofarlega til þess að hann ætti möguleika á þingsæti. Þetta er mögulegt vegna þess að um prófkjör eru ekki til neinar samræmdar reglur og þau fara fram á mismunandi tíma, svo að auðvelt er að flakka á milli. Menn víla ekki fyrir sér að skrifa undir eindregna stuðningsyfilýsingu við alla flokka til að hafa áhrif á skipan framboðslista þeirra, því að menn skynja það að það er þar sem hin raunverulega kosning fer fram! Fullyrða má, að í hinum almennu þingkosningum sé kosið um aðeins 3-7 sæti. Allir hinir, 56-60, eru í "öruggum sætum", hafa verið útnefndir af flokkum sínum eftir mismunandi trúverðug prófkjör, eða af örfámennum fulltrúaráðum, þar sem fyrst og fremst eru ráðandi þröng klíkusjónarmið valdstreitumanna og metorðaklifrara, sem fetað hafa upp flokksstigann með þátttöku í flokksstarfinu með tilheyrandi bingóum, félagsvist og dansi. Um þetta gilda fáar reglur, flestar þverbrotnar í hita leiksins og í raun engar valdstofnanir sem geta úrskurðað um ágreining um framkvæmdina. Í hinum almennu þingkosningum, sem fara fram eftir hinum ströngustu reglum, sem standast alþjóðlega staðla, hlotnast okkur kjósendum náðarsamlegast sá réttur að ákveða innbyrðis valdahlutföll flokkanna, sem þeir geta notað sín á milli í hrossakaupum um aðild að stjórn landsins. Er að furða þótt þingmenn líti eingöngu á sig sem auðsveipar atkvæðavélar Flokksins á þingi! Þeir vita sem er að þar starfa þeir í umboði Flokksins – ekki kjósenda þótt annað sé látið í veðri vaka. Hér verður þetta látið duga sem röksemd fyrir eftirfarandi: Setningu laga um prófkjör flokkanna, sem öll fari fram á sama tíma undir opinberu eftirliti. Landið allt eitt kjördæmi - einn maður eitt atkvæði – með möguleika á persónukjöri samfara kjöri milli flokka. Stjórnlagaþing –án þátttöku alþingismanna – sem setji m.a. lög um kosningar. Heillar aldar reynsla af því að þingmenn setji reglur um kosningar og kjördæmaskipan sýna svo ekki verður um villst að þeim er ekki treystandi fyrir því verkefni. Sýn þeirra nær aldrei lengra en að því, hvernig þeir tryggi sér endurkjör í næstu kosningum. Alþjóðleg reynsla staðfestir þetta líka. Nýleg reynsla af umgengni alþingismanna við stjórnarskrána ætti að kenna kjósendum að tími sé til kominn að þeir taki þessi mál í sínar hendur með Þjóðfundi.





×