Sport

Egill með 12 skot varin í leik

KR-ingar eru með forustu eftir annan dag hraðmóts ÍR eftir 81-74 sigur á Njarðvík. KR-ingar hafa unnið tvo fyrstu leiki sína og eru með sigurinn vísan á mótinu því þeir eru búnir að vinna bæði liðin sem geta náð þeim að stigum. Hjalti Kristinsson átti annan stórleik og skoraði 24 stig og tók 9 fráköst á 28 mínútum gegn Njarðvík. Ólafur Már Ægisson bætti við 19 stigum og Skarphéðinn Ingason var með 13 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Hjá Njarðvík skorðai Guðmundur Jónsson 23 stig, Jóhann Árni Ólafsson var með 16 stig og 6 stoðsendingar og Ólafur Aron Ingvason bætti við 13 stigum og 7 stoðsendingum. Njarðvíkingurinn hávaxni, Egill Jónasson (214 cm) hélt áfram að sýna styrk sinn og spilaði mjög vel þrátt fyrir að lið hans hafi beðið ósigur gegn KR. Egill varði 14 skot í leiknum og hefur varið 24 skot í fyrstu tveimur leikjum mótsins auk þess að taka 25 fráköst. Hið unga lið Fjölnis vann góðan sigur á liði ÍR, 76-68, í seinni leik kvöldsins og spilar til úrslita við Njarðvík um annað sætið á þriðja degi mótsins. Pálmar Ragnarsson skoraði 25 stig, tók 12 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og Brynjar Þór Kristófersson var með 24 stig og 11 fráköst. Þá skoraði Hjalti Vilhjálmsson 13 stig. Hjá ÍR var Ólafur Jónas Sigurðsson með 14 stig og 8 stoðsendingar og þeir Ásgeir Örn Hlöðversson og Fannar Freyr Helgason voru báðir með 10 stig auk þess sem Fannar reif niður 17 fráköst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×