Höfuðborg - eða til höfuðs borg? 26. júlí 2004 00:01 Kannski kem ég bara alltaf úr þeirri átt en mér finnst sem sé eins og kirkjan í Kópavogi nálægt Smáralindinni líti út eins og tvö sjónvarpstæki sem snúi skjánum hvort að öðru. Ég veit ekki hvort þetta á að vera svona, hvort hugmyndin gamla um að bænin sé símalínan okkar til Guðs hafi verið útfærð með nútímalegum hætti eða hvort hér sé um nýja útfærslu á frummyndakenningu Platons að ræða - að trúarlífi okkar megi líkja við það að við sjáum einungis bakhlið sjónvarpsins en aldrei sjálfan skjáinn... Ég veit ekki hvað þetta táknar. Ég held þetta tákni eitthvað. Margar kirkjur eru svolítið sérkennilegar. Þær líta ekki út eins og kirkjur heldur virðast vera hugsaðar sem tjáning á persónulegum hugmyndum arkítektanna um Guð og trúna eða kannski bara lífið og tilveruna. Til dæmis á Ísafirði. Þar var áður ein fallegasta kirkja landsins og maður verður alltaf jafn hissa þegar maður kemur vestur að sjá komna í staðinn byggingu sem ég man ekki betur en að Þórarinn Eldjárn hafi líkt við kommóðu. Þessi kirkjuskipti voru ámóta óskiljanleg og þegar bæjaryfirvöld á Akureyri fjarlægðu grasið af Ráðhústorginu og kratar í Hafnarfirði reistu mall sem skyggir á einn fallegasta miðbæ landsins. Það getur verið tvíbent þegar dugnaðurinn hleypur í bæjarforkólfa. Eins og Reykvíkingar horfa nú upp á við Hringbraut þar sem ekki verður betur séð en að Reykjavíkurlistinn sé í óða önn að grafa sér ógnarstóra gröf til að uppfylla æðsta draum allra þeirra sem við skipulagsmál fást: að fá að hanna sína sérstöku úrfærslu á umferðarslaufu. Ekki fer á milli mála að Kópavogur er höfuðstaður dugnaðarforkanna og óneitanlega hlýtur maður að dást að því hvernig til hefur tekist við uppbyggingu nýrra hverfa þar í bæ og mörg er þar frumleg umferðarslaufan, svo að jafn vandratað er um þennan bæ og þegar Jökull Jakobsson líkti honum við margslungið nútímalistaverk í frægum útvarpsþætti fyrir mörgum árum. Ekki leynir sér heldur heilbrigður metnaður bæjarforkólfanna sem hafa iðulega skotið Reykjavík ref fyrir rass, ekki síst þegar Salurinn glæsilegi var reistur á svipstundu á meðan borgaryfirvöld eru enn að klóra sér í hausnum yfir tónlistarhúsi. Í minni vitund sem gamals Reykvíkings er miðbærinn þar samt sem áður hinn eiginlegi miðbær og miðpunktur höfuðborgarsvæðisins og óneitanlega rennur manni til rifja að sjá allt tóma húsnæðið á Laugaveginum. Ég veit ekki hvort var verri niðurlæging fyrir miðbæ Reykjavíkur: að McDonalds skyldi leggja undir sig gamla Hressó - eða að McDonalds skyldi hverfa þaðan. En þótt mér líði sjálfum eins og hornið á Vegamótastíg og Laugavegi þar sem Mál og menning var forðum vera nafli höfuðborgarsvæðisins þá geri ég mér grein fyrir því að þessari skoðun deila ekki allir. Ég spjallaði um daginn við mann sem sagðist vel geta hugsað sér að flytja eitthvað miðsvæðis - til dæmis í Smárann í Kópavogi. Ég las í gær haft eftir Jóni Atla rithöfundi að venjulega fólkið færi í Smáralind en það væru bara rónar á Lækjartorgi. Samt held ég að Kópavogur verði ekki höfuðborg. Mér finnst hann hins vegar stundum vera til höfuðs borg. Smáralindin hefur að minnsta kosti tekið upp eitt og annað sem Reykvíkingar hafa hent - eins og nýtinn og lúsiðinn flöskusafnari - til dæmis nafnið "Vetrargarðurinn"; og hafmeyjan sem menningarvitar sprengdu á sínum tíma úr Reykjavíkurtjörn, var hún ekki sett einhvers staðar niður í Smáralind? Smárahverfið er samt ekki orðið að borg. Það virðist hvað sem öðru líður hannað og skipulagt út frá þeirri bjargföstu sannfæringu að útilokað sé að mannlíf fái þrifist úti undir beru lofti á Íslandi, og að sú iðja að rölta sér á milli búða geti einungis farið fram innandyra - og að utandyra skuli setja sem margbrotnastar og fegurstar umferðarslaufur. Þessari skoðun deila að vísu flestir landsmenn, sem telja sig þurfa að fara til útlanda til að anda að sér fersku lofti og dásama það einatt mjög að eiga þess kost að rangla um fallega bæjarhluta gamalgróinna borga, en fer ekki út undir bert loft hérlendis nema í íþróttagalla til að ganga rösklega eftir þar til gerðum göngustíg. Fólk virðist almennt ekki átta sig á því að í rauninni væri hægðarleikur að rölta sér milli skemmtilegra búða til dæmis í miðbænum í Hafnarfirði, og meira að segja líka í Reykjavík, það er að segja þeim litla hluta gamla bæjarins sem ekki er búið að flytja upp í Árbæjarsafn. Til að ganga um miðbæ Reykjavíkur er ekkert skilyrði að vera róni - eða ungur leikari. Kirkja sem lítur út eins og tvær bakhliðar á sjónvarpstækjum segir okkur að stundum getur verið gott að hugsa sig svolítið um, jafnvel þótt maður sé dugnaðarforkur. Hún minnir okkur líka dálítið á Biblíutilvitnun um steina fyrir brauð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Ert þú með geðsjúkdóm? Mjög líklega... Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Geðheilbrigðiskerfi án sálfræðinga, hvernig hljómar það? María Mjöll Björnsdóttir Skoðun Þeir sem þurfa ekki að takast á við afleiðingar gjörða sinna Davíð Már Sigurðsson Skoðun Fær ESB Ísland í jólagjöf? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Náttúruspjöll í sveitarfélagi ársins Kjartan H. Ágústsson Skoðun Tapast hafa sveitarstjórnarmenn af öllu landinu Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Kjósum Rósu á þing Linda Baldvinsdóttir Skoðun Frekar vandræðalegt Ólafur Hauksson Skoðun Kópavogur lækkar skatta á íbúa Orri Hlöðversson,Gunnar Sær Ragnarsson Skoðun
Kannski kem ég bara alltaf úr þeirri átt en mér finnst sem sé eins og kirkjan í Kópavogi nálægt Smáralindinni líti út eins og tvö sjónvarpstæki sem snúi skjánum hvort að öðru. Ég veit ekki hvort þetta á að vera svona, hvort hugmyndin gamla um að bænin sé símalínan okkar til Guðs hafi verið útfærð með nútímalegum hætti eða hvort hér sé um nýja útfærslu á frummyndakenningu Platons að ræða - að trúarlífi okkar megi líkja við það að við sjáum einungis bakhlið sjónvarpsins en aldrei sjálfan skjáinn... Ég veit ekki hvað þetta táknar. Ég held þetta tákni eitthvað. Margar kirkjur eru svolítið sérkennilegar. Þær líta ekki út eins og kirkjur heldur virðast vera hugsaðar sem tjáning á persónulegum hugmyndum arkítektanna um Guð og trúna eða kannski bara lífið og tilveruna. Til dæmis á Ísafirði. Þar var áður ein fallegasta kirkja landsins og maður verður alltaf jafn hissa þegar maður kemur vestur að sjá komna í staðinn byggingu sem ég man ekki betur en að Þórarinn Eldjárn hafi líkt við kommóðu. Þessi kirkjuskipti voru ámóta óskiljanleg og þegar bæjaryfirvöld á Akureyri fjarlægðu grasið af Ráðhústorginu og kratar í Hafnarfirði reistu mall sem skyggir á einn fallegasta miðbæ landsins. Það getur verið tvíbent þegar dugnaðurinn hleypur í bæjarforkólfa. Eins og Reykvíkingar horfa nú upp á við Hringbraut þar sem ekki verður betur séð en að Reykjavíkurlistinn sé í óða önn að grafa sér ógnarstóra gröf til að uppfylla æðsta draum allra þeirra sem við skipulagsmál fást: að fá að hanna sína sérstöku úrfærslu á umferðarslaufu. Ekki fer á milli mála að Kópavogur er höfuðstaður dugnaðarforkanna og óneitanlega hlýtur maður að dást að því hvernig til hefur tekist við uppbyggingu nýrra hverfa þar í bæ og mörg er þar frumleg umferðarslaufan, svo að jafn vandratað er um þennan bæ og þegar Jökull Jakobsson líkti honum við margslungið nútímalistaverk í frægum útvarpsþætti fyrir mörgum árum. Ekki leynir sér heldur heilbrigður metnaður bæjarforkólfanna sem hafa iðulega skotið Reykjavík ref fyrir rass, ekki síst þegar Salurinn glæsilegi var reistur á svipstundu á meðan borgaryfirvöld eru enn að klóra sér í hausnum yfir tónlistarhúsi. Í minni vitund sem gamals Reykvíkings er miðbærinn þar samt sem áður hinn eiginlegi miðbær og miðpunktur höfuðborgarsvæðisins og óneitanlega rennur manni til rifja að sjá allt tóma húsnæðið á Laugaveginum. Ég veit ekki hvort var verri niðurlæging fyrir miðbæ Reykjavíkur: að McDonalds skyldi leggja undir sig gamla Hressó - eða að McDonalds skyldi hverfa þaðan. En þótt mér líði sjálfum eins og hornið á Vegamótastíg og Laugavegi þar sem Mál og menning var forðum vera nafli höfuðborgarsvæðisins þá geri ég mér grein fyrir því að þessari skoðun deila ekki allir. Ég spjallaði um daginn við mann sem sagðist vel geta hugsað sér að flytja eitthvað miðsvæðis - til dæmis í Smárann í Kópavogi. Ég las í gær haft eftir Jóni Atla rithöfundi að venjulega fólkið færi í Smáralind en það væru bara rónar á Lækjartorgi. Samt held ég að Kópavogur verði ekki höfuðborg. Mér finnst hann hins vegar stundum vera til höfuðs borg. Smáralindin hefur að minnsta kosti tekið upp eitt og annað sem Reykvíkingar hafa hent - eins og nýtinn og lúsiðinn flöskusafnari - til dæmis nafnið "Vetrargarðurinn"; og hafmeyjan sem menningarvitar sprengdu á sínum tíma úr Reykjavíkurtjörn, var hún ekki sett einhvers staðar niður í Smáralind? Smárahverfið er samt ekki orðið að borg. Það virðist hvað sem öðru líður hannað og skipulagt út frá þeirri bjargföstu sannfæringu að útilokað sé að mannlíf fái þrifist úti undir beru lofti á Íslandi, og að sú iðja að rölta sér á milli búða geti einungis farið fram innandyra - og að utandyra skuli setja sem margbrotnastar og fegurstar umferðarslaufur. Þessari skoðun deila að vísu flestir landsmenn, sem telja sig þurfa að fara til útlanda til að anda að sér fersku lofti og dásama það einatt mjög að eiga þess kost að rangla um fallega bæjarhluta gamalgróinna borga, en fer ekki út undir bert loft hérlendis nema í íþróttagalla til að ganga rösklega eftir þar til gerðum göngustíg. Fólk virðist almennt ekki átta sig á því að í rauninni væri hægðarleikur að rölta sér milli skemmtilegra búða til dæmis í miðbænum í Hafnarfirði, og meira að segja líka í Reykjavík, það er að segja þeim litla hluta gamla bæjarins sem ekki er búið að flytja upp í Árbæjarsafn. Til að ganga um miðbæ Reykjavíkur er ekkert skilyrði að vera róni - eða ungur leikari. Kirkja sem lítur út eins og tvær bakhliðar á sjónvarpstækjum segir okkur að stundum getur verið gott að hugsa sig svolítið um, jafnvel þótt maður sé dugnaðarforkur. Hún minnir okkur líka dálítið á Biblíutilvitnun um steina fyrir brauð.