Viðskipti innlent

Hagnaður Landsbanka 6 milljarðar

Hagnaður Landsbankans á fyrstu sex mánuðum ársins eru sex milljarðar króna en heildareignir bankans eru 558 milljarðar króna. Mikill innri vöxtur hefur einkennt þróun bankans síðustu mánuðina og hafa heildareignir hans tvöfaldast frá lokum fyrsta ársfjórðungs 2003. Hagnaður bankans fyrir tímabilið janúar - júní 2004 nam 7.426 milljónum króna fyrir skatta, en að teknu tilliti til skatta og hlutdeildar minnihluta nam hagnaðurinn 6.035 milljónum króna. Hagnaður bankans fyrir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins 2003 nam 1.439 milljónum króna og 1.221 milljón króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár eftir skatta á fyrri helming ársins 2004 var óvenju góð eða 54% samanborið við 16% fyrir sama tímabil á fyrra ári. Heildareignir Landsbankans námu 558 milljörðum króna í lok júní 2004 og hafa þær aukist um 25% eða 110 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2004. Útlán bankans voru 432 milljarðar króna í lok júní 2004 samanborið við 326 milljarða króna í upphafi ársins og hafa þau aukist um 106 milljarða króna eða 32% það sem af er ári. Þar af nemur aukning vegna erlendrar starfsemi bankans og lána móðurfélagsins til erlendra aðila 40 milljörðum króna og námu lánin 24% af heildarútlánum samstæðunnar í lok júní 2004 samanborið við 20% í ársbyrjun og hafa þau aukist um 63% á tímabilinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×