Lífið

Gerðar úr hreðkum og kúrbít

Valdís Harrysdóttir, myndlistarmaður, gerir fallegar og óvenjulegar skálar úr grænmeti. Þær urðu fréttnæmar þegar Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseti féll fyrir þeim og fjárfesti í nokkrum slíkum í heimsókn sinni hingað til lands á þriðjudaginn var. "Skálarnar eru unnar úr grænmeti, einkum þó hreðkum og kúrbít. Ég hef verið að búa til pappír úr grænmeti í næstum tíu ár og geri svo ýmsa nytjahluti úr honum. Grænmetið er skorið niður í sneiðar og soðið og litað og síðan er þetta þurrkað og pressað og límt saman. Hljómar eins og mataruppskrift," segir Valdís og hlær. Valdís útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskólanum fyrir tíu árum og gerir bæði listaverk og nytjahluti. Hún telur ekki að innkaup Clintons eigi eftir að skipta sköpum fyrir skálarnar hennar. "Skálarnar verða nú ekkert endilega kallaðar Clintonskálar nema bara núna í nokkra daga en mér finnst þetta allt mjög skondið. Koma hans í Kirsuberjatréð vekur athygli og það er gott því hér er margt fallegt til sölu, bæði handverk og listmunir."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×