Lífið

Iðnaðarmenn í sólskini

Anna Sigríður Helgadóttir söngkona, segist vera heppnasta manneskja í heimi, því hún sér lífið líða hjá glugganum sínum á hverjum morgni. "Útsýnið úr glugganum í vinnuherberginu mínu er fjölbreytt og yndislegt. Fyrst ber að geta þess að ég sé Esjuna bera við himinn og kíki á hana á hverjum morgni til að vita hvernig dagurinn muni verða, hvernig litirnir eru og skýjafarið. Svo tek ég veðrið, er komin með hitamælinn sem ég fékk í sumargjöf út í gluggann og athuga hitastigið og gang himintunglanna. Næst tékka ég á því hvaða skip eru í slipp. Ég bý á Mýrargötu og húsið er alveg við slippinn. Ég á ættir til sjómanna eins og flestir, bræður mínir voru til sjós og mig langaði líka en það var hlegið að mér þegar ég sótti um. Svo auðvitað hef ég áhuga á skipum. Líkamsræktarstöðin sem ég fer í er í næsta húsi og heitir Slippurinn. Það er frábært að sjá fólk fara inn í líkamsræktarstöðina, svolítið sjúskað og niðurlútt, og koma svo út eins og nýútsprungnar rósir, ekki ósvipað skipunum í slippnum. Strákarnir í vinnugöllunum eru ekki amaleg sjón í góða veðrinu, fátt jafnast á við iðnaðarmenn í sólskini. Ég held að ég sé með lánsamari manneskjum í heimi að eiga heima á svona yndislegum stað og sjá svona líflegt mannlíf á hverjum morgni." Anna Sigga segist ekki raula neitt fyrir munni sér þegar hún nýtur útsýnisins. "Það þarf ekki að bæta neinu við þessa senu því það er músík í þessu öllu."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×