Viðskipti innlent

Verðmætið sama og fjárlögin

Bréf KB banka tóku stökk í gærmorgun strax þegar viðskipti hófust. Bréfin hækkuðu um 7,61 prósent yfir daginn, en höfðu hækkað um fimm prósent fyrir hádegi. Verðmæti bankans hækkaði um nítján milljarða króna og er nú rúm 272 milljarðar sem er um það bil fjárlög íslenska ríkisins. Ástæða hækkunarinnar er talin vera ný greining Íslandsbanka á hlutabréfum bankans. Greiningarskýrslan var send viðskiptavinum Íslandsbanka eftir lok markaða í fyrradag, eins og venja mun vera. Hún spurðist síðan hratt út. Greining Íslandsbanka setti matsgengið 514 á KB banka, en gengið var 460 fyrir opnun markaðar. Gengið fór í 500 í einum viðskiptum dagsins en endaði í genginu 495. Sérfræðingar á markaði meta hækkunina svo að markaðurinn sé afar næmur fyrir jákvæðum fréttum. Ekki er algengt að greining á fyrirtæki valdi slíkum viðbrögðum á markaði. Bréf að verðmæti um 1,5 milljarðar króna skiptu um hendur í gær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×