Viðskipti innlent

Baugur selur í House of Fraser

Baugur Group seldi hlut sinn í skosku verslanakeðjunni House of Fraser í dag. Samkvæmt fréttum breskra fjölmiðla var söluupphæðin rúmir þrír milljarðar króna og ágóði Baugs allt að einn milljarður króna. Bæði Baugur Group og skoski viðskiptajöfurinn Tom Hunter seldu hluti sína í skosku verslanakeðjunni House of Fraser í dag fyrir tæpar 56 milljónir punda, eða andvirði rúmlega 7 milljarða króna. Kaupandinn var Dresdner Kleinwort Wasserstein. Gengi bréfa í House of Fraser lækkaði um tæp 10 prósent í morgun í kjölfar fréttanna. Sterkur orðrómur hefur verið í gangi síðustu mánuði um að Hunter ætlaði sér að eignast meirihluta í House of Fraser og að hann nyti stuðnings Baugs við það. Salan í morgun kom því á óvart, en verðbréfasalar í Bretlandi hófu þegar í stað vangaveltur um að Hunter og Baugur hlytu að hafa fengið augastað á öðru fyrirtæki, án þess þó að treysta sér lengra í þeim vangaveltum. Talsmaður Hunters segir að hann hafi hagnast um 9 milljónir punda á sölunni, eða rúmlega milljarð króna. Hunter átti 10,9 prósenta hlut í House og Fraser og Baugur litlu minna eða 10 prosent. Fréttastofa reyndi án árangurs að ná tali af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×