Viðskipti innlent

Verslunarráð vill einkavæða meira

Verslunarráð Íslands sendi bréf til einkavæðingarnefndar í lok ágúst. Þar er óskað eftir því að eftirliti með framkvæmdum við hafnir landsins verði komið í hendur einkaaðila. Í bréfinu bendir Verslunarráð á að heimild til útboðs á slíkum verkefnum sé til staðar og að slíkt verkefni félli vel að þeim markmiðum sem framkvæmdanefnd um einkavæðingu hafi sett sér. Í bréfinu segir að ávinningur af einkavæðingu verkefnisins sé sá að kostnaður komi til með að minnka þar sem samlegðaráhrif séu líklegri til að skila árangri sé verkefnið í höndum einkaaðila. Að sögn Þórs Sigfússonar, framkvæmdastjóra Verslunarráðs, hefur ekkert svar borist við erindinu. Hann segir að nú standi yfir vinna við að koma auga á ýmis verkefni sem heppilegt væri að færa til einkaaðila og að Verslunarráð muni áfram vekja athygli stjórnvalda, bæði ríki og sveitarfélaga, á þeim tækifærum sem það sér. "Eftir að við settum í gang þessa vinnu höfum við fengið fleiri ábendingar og erum að vinna með þær. Og það er af nógu að taka bæði í rekstri sveitarfélaga og ríkisins. Það er ekki síður ástæða til að hafa auga með því sem er að gerast í rekstri sveitarfélaga," segir Þór.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×