Viðskipti innlent

Ekkert við því að segja

"Er ekki lífið bara svona," svaraði Björn Jósef Arnviðarson, stjórnarformaður Íslandspósts, spurður um skyndilega uppsögn Einars Þorsteinssonar forstjóra og áform hans um stofnun nýs póstdreifingarfyrirtækis í samvinnu við útgáfufélag Fréttablaðsins. "Hann vildi breyta til og ekkert við því að segja." Björn Jósef hefur ekki áhyggjur af að Einar búi yfir viðskiptaleyndarmálum eða öðrum viðkvæmum upplýsingum sem væru illa komnar í samkeppnisfyrirtæki. "Í nútíma viðskiptum gerast hlutirnir hratt og það sem er nýtt í dag getur verið úrelt á morgun. Einar er heiðarlegur maður og það hvarflar ekki að mér að hann færi að nýta einhverja vitneskju héðan í óeðlilegum tilgangi." Björn Jósef sagðist auðvitað sjá á eftir góðum manni en ekki væri annað að gera en þakka honum fyrir vel unnin störf og óska honum góðs gengis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×