Þetta verkfall er slys 20. september 2004 00:01 Niðurstöður úr könnun OECD á kennsluháttum víða um lönd sem sagt var frá í útvarpsfréttum í fyrrakvöld voru ekki til þess fallnar að auka manni samúð með kjarabaráttu kennara. Í sem skemmstu máli leiddi þessi könnun í ljós að Ísland er í þriðja sæti á heimsvísu þegar um er að ræða framlög til kennslumála en þegar kemur að fjölda kennslustunda bregður svo við að Ísland hrapar niður úr öllu valdi. Með öðrum orðum: framlög úr almannasjóðum til menntamála skila sér ekki til barnanna. Þau fara sennilega í byggingar að klassískum íslenskum hætti – og til undirbúnings kennslu. Og nú eru kennarar enn á ný að krefjast kjarabóta. Það er að heyra að þeir fái ekki nægan tíma til undirbúnings kennslu. Ég heyrði talsmann þeirra í útvarpinu um daginn tala um að þeir hefðu ekki nokkurn tíma til að undirbúa kennsluna – þetta væri allt orðið svo flókið. Á honum var að skilja að það væri svo erfitt að setja sig inn í öll þessi tölvumál, læra að senda tölvupóst og þar fram eftir götunum, og til þess hrykkju engan veginn þær níu stundir á viku sem ætlaðar væru til slíkra hluta. Enginn efast um mikilvægi kennarastarfsins. Kennarastarfið er mikilvægara en öll forstjórastörfin, öll sviðsstjórastörfin, öll fulltrúastörfin, öll forstöðumannastörfin, já öll silkihúfustörfin samanlögð sem samt eru svo miklu betur borguð en kennarastarfið vegna þess að verðmætamat samfélagsins er svo brogað. Við ætlum kennurum ekki einungis að mennta börnin okkar í náttúrufræði, landafræði, stærðfræði og dönsku, heldur væntum við þess að þeir geti greitt úr öllum ágreiningi sem upp kemur, róað, sefað og huggað og innrætt þeim í leiðinni siðlega og rétta breytni: kennarar eru hitt stóra aflið í lífi barnanna okkar og því verður ekki með orðum lýst hversu mikilvægt fólk þeir eru. Og hvernig eigum við að fara að því að meta starf þeirra? Ættu þeir að hafa fimm hundruð þúsund krónur á mánuði? Ættu þeir að hafa þrettánhundruð þúsund krónur á mánuði? Kannski átján milljónir á mánuði? Hvenær fá þeir nógsamlega borgað fyrir það sem þeim er trúað fyrir? Það verður aldrei mælt í peningum. Kennarar munu alltaf geta bent á einhverja hégómastétt og sagt: af hverju fáum við ekki jafn mikið og þetta þýðingarlausa fólk? Og það er vegna þess að verðmætamatið í samfélaginu er skakkt. En á það að bitna á börnunum? Eru kjör kennara virkilega svo slæm að hafa beri af börnum lögboðinn rétt þeirra til menntunar? Gengur þetta fólk um og sveltur? Það er einmitt út af mikilvægi starfsins sem kennarar eru meðal þeirra stétta sem eiga að fara sparlegast með verkfallsrétt sinn. Þegar kennarar fara í verkfall er lífi barna raskað og af þeim eru hafðar kennslustundir sem þau munu aldrei endurheimta. Til þess þurfa að vera ærnar ástæður. Verkfallsréttur er neyðarréttur – og það gildir alveg sérstaklega um fólk sem hefur þann trúnaðarstarfa með höndum að annast menntun barna. Í nútímasamfélagi er verkfall algjört neyðarúrræði þegar allt annað þrýtur. Fólk fer í verkfall þegar það er beitt einhverjum stórkostlegum órétti, þegar það lepur dauðann úr skel, þegar það er niðurlægt daglega, fyrirlitið, hrakið og svívirt. Verkfall er nefnilega mjög róttæk aðgerð og verkfallsvopnið ber að umgangast með varúð og virðingu en ekki léttúð. Forystumenn launþegasamtaka sem eru starfi sínu vaxnir eiga að geta hagað réttindamálum umbjóðenda sinna með þeim hætti að ekki þurfi að koma til verkfalls. Þetta verkfall beinist gegn börnum. Það hefur af þeim mannréttindi og lögboðinn rétt þeirra til að læra. Hafa kennarar ærna ástæðu til þess að grípa til slíkra örþrifaráða? Því getur náttúrlega enginn svarað nema þeir sjálfir. Og þeir þurfa sjálfir að svara því – strax – sjálfir en ekki þeir atvinnumenn í kjaradeilum sem fyrir þeim fara og hafa kallað þessi vandræði yfir stéttina Þessir atvinnumenn hafa með öðrum orðum misreiknað sig. Þeir lögðu of mikið undir, þeir hafa hagað sér eins og fjárhættuspilari sem ofmetur eigin klókindi og fyrir vikið virðast viðræðurnar komnar í óleysanlegan hnút. Hvernig má líka annað vera? Það er ekki einu sinni ljóst gegn hverjum kröfurnar beinast. Sjálfar aðgerðirnar beinast gegn börnum landsins – það liggur ljóst fyrir – en þegar kemur að kröfunum verður allt þokukenndara. Samningamenn kennara krefjast þess af sveitarfélögunum að ríkið auki framlög sín til menntamála. Hafa þeir rökstuddan grun um að þessi kröfugerð muni skila árangri? Ef ekki: hvers vegna eru þeir þá að leggja út í þessa óvissuferð? Hvernig sem á það er litið virðist þetta verkfall vera óígrundað slys. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Hefur sálfræðileg meðferð áhrif á líkamlegt heilbrigði? Rúnar Helgi Andrason Skoðun Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun
Niðurstöður úr könnun OECD á kennsluháttum víða um lönd sem sagt var frá í útvarpsfréttum í fyrrakvöld voru ekki til þess fallnar að auka manni samúð með kjarabaráttu kennara. Í sem skemmstu máli leiddi þessi könnun í ljós að Ísland er í þriðja sæti á heimsvísu þegar um er að ræða framlög til kennslumála en þegar kemur að fjölda kennslustunda bregður svo við að Ísland hrapar niður úr öllu valdi. Með öðrum orðum: framlög úr almannasjóðum til menntamála skila sér ekki til barnanna. Þau fara sennilega í byggingar að klassískum íslenskum hætti – og til undirbúnings kennslu. Og nú eru kennarar enn á ný að krefjast kjarabóta. Það er að heyra að þeir fái ekki nægan tíma til undirbúnings kennslu. Ég heyrði talsmann þeirra í útvarpinu um daginn tala um að þeir hefðu ekki nokkurn tíma til að undirbúa kennsluna – þetta væri allt orðið svo flókið. Á honum var að skilja að það væri svo erfitt að setja sig inn í öll þessi tölvumál, læra að senda tölvupóst og þar fram eftir götunum, og til þess hrykkju engan veginn þær níu stundir á viku sem ætlaðar væru til slíkra hluta. Enginn efast um mikilvægi kennarastarfsins. Kennarastarfið er mikilvægara en öll forstjórastörfin, öll sviðsstjórastörfin, öll fulltrúastörfin, öll forstöðumannastörfin, já öll silkihúfustörfin samanlögð sem samt eru svo miklu betur borguð en kennarastarfið vegna þess að verðmætamat samfélagsins er svo brogað. Við ætlum kennurum ekki einungis að mennta börnin okkar í náttúrufræði, landafræði, stærðfræði og dönsku, heldur væntum við þess að þeir geti greitt úr öllum ágreiningi sem upp kemur, róað, sefað og huggað og innrætt þeim í leiðinni siðlega og rétta breytni: kennarar eru hitt stóra aflið í lífi barnanna okkar og því verður ekki með orðum lýst hversu mikilvægt fólk þeir eru. Og hvernig eigum við að fara að því að meta starf þeirra? Ættu þeir að hafa fimm hundruð þúsund krónur á mánuði? Ættu þeir að hafa þrettánhundruð þúsund krónur á mánuði? Kannski átján milljónir á mánuði? Hvenær fá þeir nógsamlega borgað fyrir það sem þeim er trúað fyrir? Það verður aldrei mælt í peningum. Kennarar munu alltaf geta bent á einhverja hégómastétt og sagt: af hverju fáum við ekki jafn mikið og þetta þýðingarlausa fólk? Og það er vegna þess að verðmætamatið í samfélaginu er skakkt. En á það að bitna á börnunum? Eru kjör kennara virkilega svo slæm að hafa beri af börnum lögboðinn rétt þeirra til menntunar? Gengur þetta fólk um og sveltur? Það er einmitt út af mikilvægi starfsins sem kennarar eru meðal þeirra stétta sem eiga að fara sparlegast með verkfallsrétt sinn. Þegar kennarar fara í verkfall er lífi barna raskað og af þeim eru hafðar kennslustundir sem þau munu aldrei endurheimta. Til þess þurfa að vera ærnar ástæður. Verkfallsréttur er neyðarréttur – og það gildir alveg sérstaklega um fólk sem hefur þann trúnaðarstarfa með höndum að annast menntun barna. Í nútímasamfélagi er verkfall algjört neyðarúrræði þegar allt annað þrýtur. Fólk fer í verkfall þegar það er beitt einhverjum stórkostlegum órétti, þegar það lepur dauðann úr skel, þegar það er niðurlægt daglega, fyrirlitið, hrakið og svívirt. Verkfall er nefnilega mjög róttæk aðgerð og verkfallsvopnið ber að umgangast með varúð og virðingu en ekki léttúð. Forystumenn launþegasamtaka sem eru starfi sínu vaxnir eiga að geta hagað réttindamálum umbjóðenda sinna með þeim hætti að ekki þurfi að koma til verkfalls. Þetta verkfall beinist gegn börnum. Það hefur af þeim mannréttindi og lögboðinn rétt þeirra til að læra. Hafa kennarar ærna ástæðu til þess að grípa til slíkra örþrifaráða? Því getur náttúrlega enginn svarað nema þeir sjálfir. Og þeir þurfa sjálfir að svara því – strax – sjálfir en ekki þeir atvinnumenn í kjaradeilum sem fyrir þeim fara og hafa kallað þessi vandræði yfir stéttina Þessir atvinnumenn hafa með öðrum orðum misreiknað sig. Þeir lögðu of mikið undir, þeir hafa hagað sér eins og fjárhættuspilari sem ofmetur eigin klókindi og fyrir vikið virðast viðræðurnar komnar í óleysanlegan hnút. Hvernig má líka annað vera? Það er ekki einu sinni ljóst gegn hverjum kröfurnar beinast. Sjálfar aðgerðirnar beinast gegn börnum landsins – það liggur ljóst fyrir – en þegar kemur að kröfunum verður allt þokukenndara. Samningamenn kennara krefjast þess af sveitarfélögunum að ríkið auki framlög sín til menntamála. Hafa þeir rökstuddan grun um að þessi kröfugerð muni skila árangri? Ef ekki: hvers vegna eru þeir þá að leggja út í þessa óvissuferð? Hvernig sem á það er litið virðist þetta verkfall vera óígrundað slys.